Innlent

Sóttu skip­verja á rúss­nesku skipi langt út á sjó og svo beint í Hrafn­tinnu­sker

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skipverjinn var hífður upp í þyrluna. Myndin er úr safni.
Skipverjinn var hífður upp í þyrluna. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Þyrslusveit Landhelgisgæslunnar sinnti í morgun útkalli vegna veiks skipverja á rússnesku fiskiskipi. Tvær þyrlur voru notaðar í útkallinu þar sem skipið var langt úti á hafi. Önnur þyrlan var svo notuð til að sækja slasaða göngukonu strax í kjölfarið.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við fréttastofu. 

Mættu skipinu í morgun

„Fyrra útkallið byrjaði reyndar í gær. Skipstjóri rússnesks fiskiskips, sem var 600 sjómílum [um 1.111 kílómetrum] suðvestur af Reykjanestá, tilkynnti um að um borð væri veikur skipverji sem þyrfti að koma undir læknishendur. Skipstjóranum var ráðlagt að sigla inn í íslenska efnahagslögsögu og sagt að þyrla yrði send þegar skipið yrði komið inn í drægi þyrlanna,“ segir Ásgeir.

Þegar farið sé út fyrir 20 sjómílur frá landi þarf að kalla út tvær þyrlur. Önnur sjái um útkallið sjálft, en hin sé send til vara.

Annað útkall barst á meðan

„Þeir mættu skipinu þarna 120 sjómílum suðvestur af Reykjanestá. Skipverjinn var þá hífður um borð. Síðan þegar þyrlurnar voru á bakaleið var aftur óskað eftir aðstoð gæslunnar, nú vegna göngukonu sem hafði slasast við Hrafntinnusker. Þyrlan sem var í fylgdinni var þá send að sinna því, meðan þyrlan sem annaðist togarann er rétt ókomin að Landspítalanum, og hin á leið í Hrafntinnusker.“

Ásgeir segir útköll þar sem fljúga þurfi langt út á sjó krefjast mikils undirbúnings og skipulags.

„Þetta er snúið verkefni þegar það þarf að fara svona langt á haf út, þess vegna þarf að senda tvær þyrlur. Þegar það útkall er að klárast þá kemur hitt, þannig að það er nóg að gera þessa stundina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×