Körfubolti

Tap í síðasta leik fyrir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu gegn Litáen.
Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu gegn Litáen. vísir/anton

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði fyrir Litáen, 96-83, í síðasta æfingaleik sínum fyrir EM sem hefst í næstu viku. Leikið var í Alytus í Litáen í dag.

Litáen hefur á gríðarlega sterku liði að skipa og leiddi allan tímann í leiknum í dag. Litáar komust í 14-3 og leiddu með níu stigum eftir 1. leikhluta, 23-14. Sami munur var á liðunum í hálfleik, 47-38.

Litáíska liðið hélt því íslenska alltaf í hæfilegri fjarlægð og náði mest tuttugu stiga forskoti. Á endanum munaði þrettán stigum á liðunum, 96-83.

Sex leikmenn íslenska liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Martin Hermannsson var stigahæstur með þrettán stig en Elvar Már Friðriksson kom næstur með tólf stig. Allir tólf leikmenn á skýrslu komu við sögu í leiknum í dag.

Azuolas Tubelis var stigahæstur á vellinum með 23 stig og Jonas Valanciunas, leikmaður Denver Nuggets í NBA-deildinni, skoraði sextán stig og tók átta fráköst.

Íslensku strákarnir halda nú til Katowice í Póllandi þar sem riðill þeirra á EM verður leikinn. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Ísrael á fimmtudaginn. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland tekur þátt á EM en liðið bíður enn eftir sínum fyrsta sigri á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×