Fótbolti

Sjáðu mark Júlíusar í Sví­þjóð

Sindri Sverrisson skrifar
Júlíus Magnússon í treyju Elfsborg
Júlíus Magnússon í treyju Elfsborg Mynd: Elfsborg

Júlíus Magnússon skoraði fyrir Elfsborg í dag í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðið varð samt að sætta sig við svekkjandi tap á heimavelli, 2-1, gegn einu af neðstu liðunum, Halmstad. Fleiri Íslendingar voru á ferðinni í Svíþjóð.

Elfsborg er nú í 5. sæti deildarinnar með 36 stig, stigi á eftir Malmö og AIK, og hefði því getað setið í 3. sæti ef liðið hefði landað sigri í dag.

Júlíus jafnaði metin í 1-1 á 66. mínútu og má sjá markið hér að neðan.

Pascal Gregor skoraði hins vegar sigurmark Halmstad þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Júlíus lék allan leikinn en Ari Sigurpálsson aðeins fyrri hálfleikinn, en Elfsborg gerði fjórfalda breytingu í hálfleik, í stöðunni 1-0 fyrir Halmstad. Gísli Eyjólfsson var þá einnig tekinn af velli hjá Halmstad.

Tvö stig en fjögur sæti á milli eftir Íslendingaslag

Malmö og IFK Gautaborg gerðu markalaust jafntefli. Arnór Sigurðsson kom inn á sem varamaður strax á 29. mínútu hjá Malmö og Daníel Tristan Guðjohnsen á 56. mínútu. Kolbeinn Þórðarson var á miðjunni hjá Gautaborg allan leikinn.

Eins og fyrr segir er Malmö í 3. sæti með 37 stig en Gautaborg er skammt undan með 35 stig en þó í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×