Enski boltinn

Rooney feginn að Dowman tók ekki vítið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Max Dowman átti eftirminnilega innkomu gegn Leeds United.
Max Dowman átti eftirminnilega innkomu gegn Leeds United. epa/ANDY RAIN

Wayne Rooney segir að Max Dowman hafi komið sér á kortið með innkomu sinni í 5-0 sigri Arsenal á Leeds United í gær. Dowman er næstyngsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins fimmtán ára og 234 daga gamall.

Rooney þekkir það manna best hvernig er að koma kornungur fram á sjónarsviðið en hann var aðeins sextán ára þegar hann lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði þá frægt sigurmark Everton gegn Englandsmeisturum Arsenal.

„Að spila í ensku úrvalsdeildinni á þessum aldri er brjálað. Ég veit að ég var ungur þegar ég spilaði minn fyrsta leik en ég held að hann sé um 150 dögum yngri en ég,“ sagði Rooney í nýju hlaðvarpi sínu á BBC.

„Það er hressandi að sjá svona ungan strák fá þetta tækifæri og jafnvel þótt hann sé að spila fyrir Arsenal viltu að hann skjóti þegar hann leikur inn á miðjan völlinn. Þú vilt að hann setji boltann upp í markhornið.“

Dowman fiskaði vítaspyrnu eftir að hann kom inn á gegn Leeds en tók hana ekki sjálfur sem Rooney var ánægður með.

„Ef hann tekur spyrnuna og skorar er það frábært en ég hugsaði að ef hann klúðrar henni fengi hann marga á netinu á bakið á sér. Ég var því mjög ánægður að hann tók ekki vítið en þetta var tilkomumikil frumraun.“

Settu fjölskylduna í fyrsta sæti

Rooney segir að nafn Dowmans sé á allra vörum en hvetur strákinn til að halda sér á jörðinni og vera í nánum tengslum við sína nánustu.

„Ég er viss um að Max, fjölskylda hans og vinir finnist þau vera stödd í draumi og ævintýri og hafa eflaust ekki enn áttað sig á þessu. En þú sérð hversu björt framtíð hans er. Þegar þú ræðir við fólk í fótboltanum kemur alltaf sama nafnið upp: Max Dowman,“ sagði Rooney.

„Þetta væri erfitt fyrir hvern sem er. Það fyrsta sem þú þarft að gera er að vera með þínum nánustu. Hlustaðu á þau því það er fólk þarna úti sem reynir að vingast við þig og ná sambandi við mig. Sumir af góðum ástæðum en aðrir ekki. Þú þarft að hlusta frekar á fólkið í kringum þig frekar en utanaðkomandi.“

Arsenal hefur unnið báða leiki sína á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni með markatölunni 6-0. Næsti leikur liðsins er gegn Englandsmeisturum Liverpool á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Næst yngsti leik­maður í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Hinn 15 ára gamli Max Dowman skráði sig í sögubækurnar í dag þegar hann kom inn á sem varamaður í leik Arsenal og Leeds en Dowman varð þar með annar yngsti leikmaður í sögu deildarinnar og jafnframt aðeins sá þriðji sem þreytir frumraun sína 15 ára gamall.

Öruggur sigur Arsenal á nýliðunum

Arsenal er með fullt hús stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni en liðið vann öruggan 5-0 sigur á Leeds í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×