Enski boltinn

Van Dijk um Rio: Draumabyrjun en hann verður að vera auð­mjúkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar hinum sextán ára gamla Rio Ngumoha eftir sigurmark stráksins í kvöld.
Virgil van Dijk fagnar hinum sextán ára gamla Rio Ngumoha eftir sigurmark stráksins í kvöld. EPA/ADAM VAUGHAN

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, sá liðið sitt vinna dramatískan 3-2 sigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn var mjög erfiður fyrir Liverpool liðið sem missti niður 2-0 forystu.

„Við vitum öll að þetta er erfiður staður að spila og það kom mikil olía á eldinn í vikunni til að kveikja upp í Newcastle liðinu. Við bjuggumst því við þessu. Við erum vonsviknir með að fá á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum. Það á ekki að gerast,“ sagði Van Dijk.

„Heilt yfir þá voru þetta frábær þrjú stig og við höldum bara áfram. Við hefðum gert okkur þetta auðveldara fyrir með því að fá ekki á okkur þessi mörk úr föstu leikatriðum. Þau gáfu þeim mikinn kraft og áhorfendunum auðvitað líka,“ sagði Van Dijk.

Liverpool varð manni fleiri í lok fyrri hálfleiks eftir brot Anthony Gordon á Van Dijk. „Ég sagði við hann: Ef þetta er ekki rautt spjald þá skil ég ekki fótbolta. Það var skrýtið að dómarinn lyfti ekki rauða spjaldinu strax,“ sagði Van Dijk. Gula spjaldið fór fyrst á loft en dómarinn breytti því í rautt eftir að hann fór í skjáinn.

Hinn sextán ára gamli Rio Ngumoha var hetja kvöldsins þegar hann skoraði sigurmarkið á tíundu mínútu í uppbótatíma.

„Þetta er draumabyrjun fyrir hann og öll sóknin fyrir markið var góð. Harvey byrjaði þetta út á kanti og Szoboszlai lét boltann fara. Þetta var fullkomin sókn,“ sagði Van Dijk.

„Við héldum ró okkar og fundum leiðina til að skora mark. Ég er mjög mjög ánægður fyri hönd Rio. Hann verður samt að halda áfram að leggja mikið á sig og vera áfram auðmjúkur. Hann má samt njóta þess núna því það má ekki taka svona kvöldum sem sjálfsögðum hluti. Ég er viss um að hann mætir klár á erfiða æfingu á morgun,“ sagði Van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×