Innlent

„Það er bara allt á floti hérna alls staðar“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Trukkur frá Þorbirni fylgir ferðamönnum yfir veginn við Kýlingarvatn.
Trukkur frá Þorbirni fylgir ferðamönnum yfir veginn við Kýlingarvatn. Landsbjörg

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur staðið í ströngu frá því snemma í morgun við að aðstoða ferðamenn að Fjallabaki og þar um kring. Gríðarlegir vatnavextir eru á svæðinu og aðstæður leiðinlegar.

„Það er búið að vera töluvert álag á okkur frá því snemma í morgun. Það er búið að vera svo ofboðslega vont veður og mikið vatnsveður. Það er bara allt á floti hérna alls staðar,“ segir Orri Rafn Sigmarsson, í björgunarsveitinni Þorbirni sem sinnir nú hálendisvakt í Landmannalaugum.

„Hér eru allir vegir hálfpartinn á kafi í pollum og ár farnar að flæða alls staðar yfir bakka sína og meira að segja tjaldstæðið hérna á Laugum er á floti.“

Í eftirfarandi myndbandi má sjá trukk frá Þorbirni fylgja ferðamönnum við Kýlingarvatn þar sem alla jafna er beinn og breiður vegur.

Orri segir að björgunarsveitin hafi aðstoðað töluvert marga í dag, en ekkert alvarleg hafi komið upp á. Aðstoð hafi aðallega verið fólgin í að aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar.

Er fólk ekki þakklátt þegar þið mætið á staðinn?

„Jú við eigum inni nokkur matarboð í kvöld ef við viljum,“ segir Orri.

Aðallega hafi þetta verið erlendir ferðamenn hingað til.

„Þetta eru aðallega ferðamenn, sem hafa kannski farið á mis við upplýsingar um veðrið, ekki áttað sig á því hvernig þetta myndi koma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×