Fótbolti

Crystal Palace sótti fyrsta sigur tíma­bilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jean-Philippe Mateta fagnar marki sínu.
Jean-Philippe Mateta fagnar marki sínu. Michael Steele/Getty Images

Eftir tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins vann Crystal Palace öruggan 0-3 sigur er liðið heimsótti Aston Villa í síðasta leik þriðju umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Palace hafði gert jafntefli við Chelsea og Nottingham Forest í fyrstu leikjum tímabilsins á meðan Aston Villa gerði jafntefli við Newcastle og tapaði gegn Brentford.

Heimamenn í Aston Villa virtust líklegri til afreka framan af leik, en það voru hins vegar gestirnir í Crystal Palace sem urðu fyrri til að brjóta ísinn þegar Jean-Philippe Mateta skoraði af vítapunktinum eftir rúmlega tuttugu mínútna leik.

Það var svo Marc Guehi sem tvöfaldaði forystu gestanna á 68. mínútu áður en Ismaila Sarr skoraði þriðja mark liðsins tíu mínútum síðar og þar við sat.

Niðurstaðan því öruggur 0-3 sigur Crystal Palace sem nú er með fimm stig eftir þrjár umferðir, en Aston Villa er enn aðeins með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×