Körfubolti

Þegar á­tján ára Doncic fíflaði Hlyn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Doncic fer framhjá Ægi Þór Steinarssyni á EM 2017 í Helsinki.
Doncic fer framhjá Ægi Þór Steinarssyni á EM 2017 í Helsinki. Norbert Barczyk/Press Focus/MB Media/Getty Images

Luka Doncic, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, mun í annað sinn mæta Íslandi á stórmóti er Slóvenía tekst á við strákana okkar í keppnishöllinni í Katowice í Póllandi á EM í körfubolta í dag. Hann sýndi styrk sinn sem ungur pjakkur fyrir átta árum síðan.

Ísland tapaði 102-75 fyrir Slóveníu í Helsinki á EM árið 2017 þar sem Slóvenar voru á meðal bestu landsliða heims. Þeir raunar enduðu á að verða Evrópumeistarar á því móti.

Þá var Doncic, ungur leikmaður Real Madrid á Spáni, að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu á stórmóti og fékk stórt tækifæri er hann spilaði 26 mínútur gegn Íslandi. Hann skoraði 13 stig í leiknum, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Eitt atvik vakti sérstaka athygli, þegar Doncic fíflaði Hlyn Bæringsson í íslensku vörninni og þrykkti niður þriggja stiga körfu. Atvikið má sjá í spilaranum sem fylgir.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Doncic hefur verið einn allra besti leikmaður heims. Ári eftir leikinn við Ísland varð hann EuroLeague meistari og valinn besti leikmaður keppninnar. Í kjölfarið fór hann í nýliðaval NBA-deildarinnar og var þar nýliði ársins.

Hann hefur verið stórkostlegur með Dallas Mavericks og var stigahæstur í NBA-deildinni árið 2024. Hann skipti svo til Los Angeles Lakers í ár.

Fróðlegt verður að sjá strákana okkar takast á við Slóvena og þá sérlega Doncic sem hefur eðlilega dregið vagninn hjá liðinu á mótinu en gengið þó verið undir væntingum hingað til.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 17:00 og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×