Körfubolti

Ís­lensku stuðnings­mennirnir þeir vanmetnustu á mótinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það hefur verið mikil gleði í stúkunni í Katowice.
Það hefur verið mikil gleði í stúkunni í Katowice. Vísir/Hulda Margrét

Pólskur blaðamaður hrósar stuðningsmönnum íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í hástert. Enda fer viðvera þeirra fram hjá fáum hér í Katowice í Póllandi.

Aðeins eitt er pólska blaðamanninum Pijus Sapetka ofar í huga hér í borg en íslensku stuðningsmennirnir – að sjá Rob Pelinka og Jeanie Buss, hæstráðendur hjá Los Angeles Lakers í keppnishöllinni á fyrsta leikdegi.

ísland körfubolti Eurobasket EM Katowice í Póllandi. Ísland Belgía. Stuðningsmenn ÍslandsVísir/Hulda Margrét

Íslensku stuðningsmennirnir hafa hins vegar slegið hann, samkvæmt grein hans á Basketnews. Hann bjóst við fleiri Slóvenum og Frökkum og þá að bláu treyjurnar væru frekar þaðan eða frá Ísrael.

„Nei, á nánast öllum treyjum stendur: Ísland.“

„Um 1.500 aðdáendur hafa komið frá Íslandi, þar sem búa aðeins um 390 þúsund manns. Það er um það bil 0,38 prósent landsins, eða einn af hverjum 260 Íslendingum sem hafa ferðast 2,850 kílómetra til Póllands,“ ritar Sapetka.

„Eistlendingar eru vissulega fleiri í Riga – um átta þúsund stuðningsmenn – en það eru grannþjóðir, aðeins 311 kílómetrar á milli. En hollusta þeirra íslensku er eitthvað allt annað. Það er óhætt að segja að um sé að ræða vanmetnasta stuðningshóp mótsins.“

Stuðningsfólk Íslands lét vel í sér heyra á leiknum við Pólverja.Vísir/Hulda Margrét

Sapetka tekur þá saman ummæli frá Elvari Má Friðrikssyni og Craig Pedersen sem hafa lofað stuðning íslenska liðsins allt mótið.

Hann rekur þá sorgarsögu helgarinnar hjá íslenska liðinu; grátlega tapið fyrir Belgum og skandalinn í leiknum við Pólverja.

„En stuðningsmennirnir? Þeir eru enn magnaðir, halda áfram að styðja lið sitt og sýna Víkingaandann. Sama hvað stigataflan segir.“


Tengdar fréttir

EM í dag: Helgin frá helvíti

Mánudagar verða ekki mikið þreyttari en þessi eftir helgina í Katowice sem verður hér eftir ekki kölluð annað en helgin frá helvíti.

Þegar átján ára Doncic fíflaði Hlyn og Ægi

Luka Doncic, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, mun í annað sinn mæta Íslandi á stórmóti er Slóvenía tekst á við strákana okkar í keppnishöllinni í Katowice í Póllandi á EM í körfubolta í dag. Hann sýndi styrk sinn sem ungur pjakkur fyrir átta árum síðan.

„Við getum ekki þagað yfir þessu“

„Það var erfitt að sofna en það er off dagur í dag og við náðum að sofa aðeins fram yfir til klukkan átta,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, sem átti líkt og flestir í kringum íslenska liðið erfitt með svefn eftir galinn körfuboltaleik við Pólland á EM í Katowice í gær.

Erfitt að sofa og vera einn með eigin hugsunum

Kári Jónsson átti erfitt með svefn líkt og flestir í íslenska landsliðinu eftir gríðarsvekkjandi tap fyrir Póllandi á EM karla í körfubolta í gær. Menn vildu síst vera einir með eigin hugsunum.

KKÍ kvartar til FIBA vegna dómgæslunnar

Körfuknattleikssamband Íslands hefur sent formlega kvörtun til Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA, vegna dómgæslu í leik karlalandsliðsins við Pólland á EM í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×