Handbolti

Ómar Ingi með sex marka for­skot á Gidsel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum með liði Magdeburg og er þegar orðinn langmarkahæstur í þýsky deildinni eftir tvær umferðir.
Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum með liði Magdeburg og er þegar orðinn langmarkahæstur í þýsky deildinni eftir tvær umferðir. Getty/Marco Wolf

Íslenski landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon hefur byrjað tímabilið afar í þýska handboltanum.

Ómari Ingi hefur skorað 23 mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum með Magdeburg eða 11,5 mörk að meðaltali í leik.

Það sem er jafnvel enn merkilegra er að Ómar hefur aðeins þurft að taka 26 skot til að skora þessi 23 mörk. Hann hefur því aðeins klikkað á samanlagt þremur skotum í fyrstu tveimur leikjunum. Tíu af mörkunum hafa komið úr vítum.

Ómar skoraði úr ellefu fyrstu skotum sínum í fyrstu umferðinni og svo úr öllum átta skotunum sínum í annarri umferðinni.

Skotnýting íslenska landsliðsfyrirliðans er því 88,5 prósent sem er mögnuð nýting hjá leikmanni sem spilar fyrir utan.

Ómar er líka þegar kominn með sex marka forskot á Danann Mathias Gidsel hjá Füchse Berlin sem hefur verið markakóngur í flestum mótum sem hann hefur tekið þátt í undanfarin ár.

Það er auðvitað lítið búið að tímabilinu en þessi byrjun sínar að okkar maður ætla að berjast um markakóngstitilinn á þessari leiktíð.

Ómar hefur orðið markakóngur þýsku deildarinnar einu sinni en það var tímabilið 2020-21 þegar hann skoraði 274 mörk og nýtt 69 prósent skota sinna.

Hann varð næstmarkahæstur tímabilið eftir (2021-22) og þriðja markahæsti maður þýsku deildarinnar 2023-24. Hin tímabilin hefur Ómar misst mikið úr vegna meiðsla.

Nú er Ómar aftur á móti heill og klár í slaginn frá fyrsta leik og þessar tölur sýna líka að hann er í frábæru formi sem lofar góðu fyrir komandi verkefni íslenska landsliðsins.

Markahæstu menn í þýsku deildinni eftir tvær umferðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×