Innlent

Fólk deili lyf­seðlum og „míkródósi“: „Við getum ekki rétt­lætt þá með­ferð“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir sem hefur sérhæft sig í málefnum offitu.
Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir sem hefur sérhæft sig í málefnum offitu. Vísir/arnar

Læknir, sem hefur sérhæft sig í málefnum offitu, segir afleiðingarnar af notkun ólöglegra þyngdarstjórnunarlyfja geta verið gríðarlegar. Borið hefur á því að fólk taki sig saman og deili lyfseðli. Hún segir ekki hægt að réttlæta slíka notkun. 

Lyfjastofnun hefur varað við aukinni ógn ólöglegra þyngdarstjórnunarlyfja. Framboð ólöglegra lyfja sem geta verið lífshættuleg hefur aukist til muna undanfarið í Evrópu og getur verið að þau séu einnig í dreifingu hér á landi. Dæmi eru um að þyngdarstjórnunarlyf gangi kaupum og sölu á Facebook-síðum innan landsteinanna með ólöglegum hætti.

Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir sem starfað hefur sem sérfræðingur í offitu um árabil, segir um alvarlega þróun að ræða.

„Þetta er alvöru lyf sem á að gefa samkvæmt ákveðnum ábendingum, fylgja því eftir á ákveðinn hátt og undirbúa meðferðina vel og fylgja henni eftir. Þetta er ekki bara saklaust efni sem á að fara með einhvern veginn. Það er svona alls konar hvatning, útlitsdýrkun og fólk leitast eftir þessu. Þá koma fram eftirlíkingar og falsefni. Allt þetta. Þannig er svolítið bara heimurinn.“

„Svakaleg óvissa á svo marga vegu“

Mikilvægt sé að vera á varðbergi og að meðferðin sé undir handleiðslu læknis.

„Þú veist einu sinni ekki hvað er í því. Þú veist ekki hvað það er að gera fyrir líkamann þinn. Þú veist ekki í hvaða magni það er, jafnvel þó það sé efnið sem það segist vera. Þú veist ekkert í hvaða magni það er. Þú veist ekki hvaða magn myndi hæfa fyrir þinn líkama. Þetta er svo svakaleg óvissa á svo marga vegu.“

Of algengt sé að lyfið sé misnotað en sem dæmi hefur borið á því að nokkrir einstaklingar nýti lyfseðil sameiginlega og taki þyngdarstjórnunarlyf í minni skömmtum eða míkródósi.

„Það er ekki ráðlagt og það eru ekki til rannsóknir sem sýna hvort það hafi árangur. Hvað það gerir í líkamanum, hvort það er skaðlegt eða ekki. Við getum ekki réttlætt þá meðferð.“

Stundum sé aðeins sagður hluti af heildarmyndinni

Fá of margir þetta lyf eða samþykki fyrir þessu lyfi að þínu mati?

„Ekki endilega. Það er ekkert endilega rétta fólkið. Það eru mjög margir að taka þetta lyf sem ættu ekki að vera taka þetta lyf við þyngdinni sinni. Eru kannski ekki með sjúkdóminn offitu sem við erum að meðhöndla með þessu og svo eru líka margir sem eru alls ekkert að fá meðferðina því hún er of dýr eða veigra sér við því að leita sér aðstoðar að einhverjum sökum.“

Kannast þú við það að fólk sem leitast eftir þessum lyfjum segi það sem læknar vilja heyra til að uppfylla ákveðin skilyrði?

„Ég skil mjög vel löngun fólks til að vilja fá þessi lyf en það ætti ekki að þurfa segja neitt rangt til. Það á bara að geta rætt hreinskilnislega. Auðvitað eigum við líka að nota ákveðnar mælingar. Blóðprufur, líkamssamsetningu og annað til að vita hvort einstaklingur hafi þörf til að nýta þessi lyf eða ekki.“

Veistu til þess að fólk skrökvi í svona meðferð eða samtölum við lækni?

„Veit ekki hvort ég eigi að segja skrökvi en stundum heyrir maður bara hluta af heildarmyndinni.“

Hún ítrekar það að það skipti öllu máli að rétti lífsstíllinn sé stundaður samhliða notkun lyfjanna.

„Lyfið virkar ekki í líkama sem er í miklu ójafnvægi. Eins og í miklum næringarskorti eins og er oft þegar fólk er að svelta sig og reyna léttast mjög hratt. Þetta er ekki megrunarlyf. Þetta er lyf við sjúkdómnum offitu og við eigum að vanda okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×