Menning

Leikari, óperu­söngvarar og sjó­maður vilja stýra óperunni

Árni Sæberg skrifar
Þjóðaróperan verður starfrækt sem hluti af Þjóðleikhúsinu.
Þjóðaróperan verður starfrækt sem hluti af Þjóðleikhúsinu. Vísir/Vilhelm

Ellefu vilja stýra nýrri Þjóðaróperu, sem verður starfrækt innan Þjóðleikhússins. Óperustjóri mun heyra beint undir þjóðleikhússtjóra.

Í júlí samþykkti Alþingi frumvarp um breytingu á sviðslistalögum þar sem fjallað var um stofnun Þjóðaróperu, sem mun starfa undir Þjóðleikhúsinu. Með samþykkt laganna var hægt að hefjast handa við að koma Þjóðaróperu á koppinn. Fyrsta verk var eins og gefur að skilja að auglýsa eftir óperustjóra.

Ellefu sóttu um stöðuna og þar kennir ýmissa grasa, þó að flestir hafi tengsl við sviðslistirnar. Á meðal umsækjenda eru Níels Thibaud Girerd leikari, Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri, Alexandra Chernyshova óperusöngkona og einn sjómaður.

Umsækjendur um stöðu óperustjóra:

  • Alexandra Chernyshova, óperusöngkona, tónskáld og tónlistarstjóri
  • Atli Ingólfsson, tónskáld, prófessor við Listahaskóla Íslands
  • Bjarni Thor Kristinsson, óperusöngvari og leikstjóri
  • Finnur Bjarnason, óperusöngvari og sérfræðingur
  • Gunnar Karel Másson, tónskáld
  • Halldór Einarsson Laxness, leikstjóri
  • Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari og listrænn stjórnandi/óperustjóri Norðuróps
  • Níels Thibaud Girerd, leikari
  • Richard Schwennicke, stjórnandi og répétiteur hjá Þjóðaróperunni í Vín
  • Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri
  • Þórður Emil Sigurvinsson, sjómaður

Í svari menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins við fyrirspurn Vísis segir að gert sé ráð fyrir að skipað verði í embættið eigi síðar en 15. nóvember 2025 en hæfnisnefnd leggi mat á umsóknirnar og veiti í kjölfarið ráðherra umsögn.


Tengdar fréttir

Bjóða óperu­muni fala á menningar­nótt í von um fram­halds­líf

Aðdáendur Íslensku óperunnar eiga möguleika á að eignast minjagripi þegar munir úr sýningum hennar verða boðnir til sölu í Hörpu á menningarnótt. Óperustjóri segir ósk sína að munirnir komist í góðar hendur og öðlist framhaldslíf í sviðslistum.

Þjóðaróperan alls ekki „úti í kuldanum“

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, segir það alrangt að Þjóðaróperan sé „úti í kuldanum“. Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að hún verði að veruleika og taki til starfa 1. janúar á næsta ári, 2025.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.