Handbolti

Rétt­hentu lands­liðs­horna­mennirnir í stuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting komust í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili.
Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting komust í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili. Getty/Andrzej Iwanczuk

Orri Freyr Þorkelsson og Bjarki Már Elísson spiluðu skínandi vel þegar keppni í Meistaradeild Evrópu í handbolta hófst í kvöld.

Orri og Bjarki manna vinstra hornið í íslenska landsliðinu og þeir voru báðir í góðum gír þegar lið þeirra, Sporting og Veszprém, mættu til leiks í Meistaradeildinni í kvöld.

Orri skoraði sjö mörk úr sjö skotum þegar Sporting vann Dinamo í Búkarest, 30-33. Orri spilaði frábærlega í Meistaradeildinni í fyrra og byrjar þetta tímabil af svipuðum krafti.

Staðan í hálfleik var jöfn, 15-15, en í seinni hálfleik seig Sporting fram úr. Francisco Costa skoraði átta mörk fyrir Portúgalina og bróðir hans, Martim, var með sjö mörk líkt og Orri.

Álaborg sigraði Veszprém, 32-28, á heimavelli sínum. Bjarki skoraði sex mörk úr sjö skotum og var næstmarkahæstur í ungverska liðinu á eftir Nedim Remili sem skoraði átta mörk.

Ágúst Elí Björgvinsson, sem gekk í raðir Álaborgar frá Ribe-Esbjerg í sumar, horfði á félaga sinn, Fabian Norsten, eiga flottan leik en hann varði átján skot, eða fjörutíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Thomas Arnoldsen skoraði sex mörk fyrir Álaborg og Mads Hoxer Hangaard, Felix Möller og Buster Juul fimm mörk hver.

Sporting, Dinamo Búkarest, Álaborg og Veszprém eru í A-riðli Meistaradeildarinnar ásamt Füchse Berlin, Nantes, Kielce og Kolstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×