Innlent

Starfs­menn þing­flokks taka pokann sinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins ásamt þingmönnum flokksins. Lengst til vinstri er Ólafur Adolfsson þingflokksformaður.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins ásamt þingmönnum flokksins. Lengst til vinstri er Ólafur Adolfsson þingflokksformaður. Vísir/Anton Brink

Tveimur starfsmönnum þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur verið sagt upp. Um er að ræða enn eina breytinguna hjá þingflokknum sem nýlega skipti um framkvæmdastjóra og þingflokksformann.

Ólafur Adolfsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins staðfestir að tveimur starfsmönnum hafi verið sagt upp, þeim Andra Steini Hilmarssyni og Viktori Inga Lorange. Hann segir til standa að fá nýtt fólk inn í staðinn fyrir þau sem frá hverfa.

Ólafur er nýtekinn við formennsku í þingflokknum eftir að Hildur Sverrisdóttir steig til hliðar úr formennskustól. 

Framkvæmdastjóriskipti urðu hjá flokknum í apríl þegar Björg Ásta Þórðardóttir tók við af Þórði Þórarinssyni sem hafði gegnt starfinu í ellefu ár. Þá var Berta Gunnarsdóttir ráðin fjármálastjóri flokksins í vor. Á Mbl.is kemur fram að Sigurbjörn Ingimundarson aðstoðarframkvæmdastjóri og Lilja Birgisdóttir framkvæmdastjóri landsfundar hafa einnig horfið á braut hjá flokknum eftir kjör Guðrúnar.

Breytingarnar koma allar í kjölfar formannskjörs Guðrúnar Hafsteinsdóttur í febrúar þegar hún hafði betur eftir harða og jafna baráttu við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Áslaug Arna ákvað í kjölfarið að fara í leyfi frá Alþingi og er nú í háskólanámi í New York.

Andri Steinn, sem sagt var upp í dag, er fyrrverandi aðstoðarmaður Áslaugar Örnu frá því hún var ráðherra. Þá var hann hluti af teymi hennar í kosningarbaráttunni um formannsstólinn hjá Sjálfstæðisflokknum í upphafi árs. Viktor Ingi tilheyrir sömuleiðis þeim hópi Sjálfstæðismanna sem stóð með Áslaugu Örnu í baráttunni við Guðrúnu um formanninn.

Þá gætu fleiri stórar breytingar verið í farvatninu hjá flokknum en komið hefur fram að til skoðunar sé að flytja starfsemi flokksins úr Valhöll í Reykjavík.

Eftir brotthvarfi Andra Steins og Viktors Inga eru sex starfsmenn þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þau eru Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir framkvæmdastjóri og svo almennu starfsmennirnir Árni Grétar Finnsson, Helgi Brynjarsson, Kristófer Már Maronsson, Sigríður Erla Sturludóttir og Tómas Þór Þórðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×