Erlent

Þrír horfnir ferða­menn í Fær­eyjum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þrælanípan og hinn frægi Bøsdalafossur sem steypist fram af henni. Þar er síðast vitað um ferðir ferðafólksins.
Þrælanípan og hinn frægi Bøsdalafossur sem steypist fram af henni. Þar er síðast vitað um ferðir ferðafólksins. Atlantic Airways

Hætt hefur verið leit að þremur ferðamönnum sem hurfu sporlaust á eyjunni Vogum yfir tveggja daga tímabil fyrir viku síðan. Tveggja suður-kóreskra kvenna og eins mexíkósks manns er enn saknað.

Samkvæmt umfjöllun færeyska ríkisútvarpsins hefur ekki sést til Pedro Enrique Moreno Hentz, mexíkósks ferðamanns á miðjum aldri, frá því um hádegi miðvikudaginn þriðja september. Síðdegis næsta dag fannst svo bakpoki hans í Mykinesfirði. Af staðsetningarbúnaði síma hans að dæma var hann staddur í nágrenni við Bøsdalafoss um það leyti og hann hvarf en sá foss rennur í Atlantshafið niður háan og þverhníptan hamravegg.

Lögregla lýsti eftir manninum en hætti leit laugardaginn sjötta september. Sama dag lýsti færeyska lögreglan eftir systrunum Soo Jung Park og Soo Yeon Park. Staðsetningabúnaður símtækja þeirra gefur til kynna að þær hafi verið á svipuðu reiki og Pedro Hentz síðdegis þriðjudaginn 2. september, það er við Bøsdalafoss og Þrælanípuna. Hætt var leit að þeim þriðjudaginn síðastliðinn.

Lögreglan hefur undanfarna daga leitað þeirra þriggja bæði í sjó og á landi en það hefur lítinn árangur borið. Að undanskildum bakpoka Mexíkóans hefur ekki tangur né tetur fundist af ferðamönnunum. Í frétt færeyska ríkisútvarpsins er haft eftir Kára Jacobsen rannsóknarlögreglumanni að lögregla taki enn við ábendingum en haldi ekki áfram leit að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×