Erlent

Conor McGregor dregur forsetaframboðið til baka

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
McGregor sagðist ætla að koma böndum á innflytjendamálin og standa vörð um írska menningu í embætti forseta.
McGregor sagðist ætla að koma böndum á innflytjendamálin og standa vörð um írska menningu í embætti forseta. EPA

Bardagakeppinn Conor McGregor hefur ákveðið að draga framboð sitt til forseta Írlands til baka. Hann líkir framboðsreglunum við spennitreyju sem komi í veg fyrir lýðræðislegt kjör.

McGregor greindi frá þessu á X í morgun. Tæp tvö ár eru síðan hann sagðist íhuga að bjóða sig fram í næsta forsetakjöri. 

Forseti Írlands er kjörinn til sjö ára. Embættið er, líkt og á Íslandi, formlegt að mestu leyti og felur í sér mjög takmarkað vald. Eftir að McGregor bauð sig fram hét hann því að koma böndum á innflytjendamálin í landinu til þess að standa vörð um írska menningu. 

Á Írlandi þurfa forsetaframbjóðendur að njóta stuðnings annað hvort tuttugu þingmanna eða fjögurra stjórnvalda. McGregor hefur lýst því fyrirkomulagi sem ósanngjörnu. Elon Musk auðmaður, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Tucker Carlson fyrrverandi þáttastjórnandi hjá Fox hafa meðal annars lýst yfir stuðningi við McGregor. 

Guardian hefur eftir McGregor að framboð hans hafi undirstrikað ósanngirni í kjörgengisreglum írsku stjórnarskrárinnar. Hann hefur beðið afhroð í skoðanakönnunum og mældist til að mynda með sjö prósent fylgi í nýlegri könnun. 

Í nóvember í fyrra var McGregor fundinn sekur um kynferðisbrot árið 2018 og gert að greiða brotaþola um 36 milljónir íslenskra króna í skaðabætur. Hann áfrýjaði málinu til æðra dómstigs þar sem málsástæður hans héldu ekki vatni og honum gert að greiða skaðabæturnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×