Fótbolti

Vara­maður Mikaels skoraði jöfnunar­markið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mikael Egill byrjaði á vinstri vængnum og spilaði rúmar sjötíu mínútur.
Mikael Egill byrjaði á vinstri vængnum og spilaði rúmar sjötíu mínútur.

Mikael Egill Ellertsson var í byrjunarliði Genoa í útileik gegn Como í kvöld en var tekinn af velli þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir, sá sem kom inn á fyrir hann skoraði síðan jöfnunarmarkið og leikurinn endaði 1-1.

Mikael var á vinstri vængnum hjá Genoa, sem lenti undir eftir aðeins þrettán mínútur. Nico Paz skoraði markið með glæsilegu einstaklingsframtaki eftir sendingu frá Álvaro Morata.

Lærisveinar Cesc Fábregas leiddu síðan leikinn en misstu hann niður í jafntefli á lokamínútunum.

Miðvörður Como, Jacobo Ramón, lét reka sig af velli þegar tvær mínútur voru eftir.

Varamaðurinn Caleb Ekuban, sem kom inn á vinstri vænginn fyrir Mikael, skoraði síðan jöfnunarmarkið í uppbótartímanum.

Markið var mjög dramatískt, Sergi Roberto náði að hreinsa boltann af línu en hitti stöngina og þaðan barst boltinn til Ekuban sem skoraði.

Genoa hefur nú náð tveimur stigum úr fyrstu þremur leikjum tímabilsins og situr í fimmtánda sætinu. Mikael hefur komið við sögu í öllum leikjunum og byrjað síðustu tvo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×