Enski boltinn

Slot skýtur á þá sem gagn­rýna eyðslu Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arne Slot ásamt Milos Kerkez, einum af nýju leikmönnunum hjá Liverpool.
Arne Slot ásamt Milos Kerkez, einum af nýju leikmönnunum hjá Liverpool. epa/PETER POWELL

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, gefur lítið fyrir gagnrýni á eyðslu Englandsmeistaranna í sumar.

Liverpool keypti átta leikmenn í sumar fyrir samtals 450 milljónir punda. Rauði herinn gerði fyrst Florian Wirtz og svo Alexander Isak að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu í kvöld benti Slot á að Liverpool hefði líka selt leikmenn fyrir dágóða upphæð í sumar og litlu sem engu eytt í leikmenn fyrir síðasta tímabil.

„Það er svo mikil athygli á nýju leikmönnunum okkar, sérstaklega frá álitsgjöfum sem tengjast öðrum félögum. Ef við viljum styrkja hópinn okkar verðum við eyða svona miklum pening,“ sagði Slot.

Hollendingurinn benti ennfremur á að allir leikmennirnir sem Liverpool keypti í sumar væru ungir, eða 25 ára og yngri.

„Ég held að það sé bara hrós að fólk tali um að við höfum eytt svona miklu því það segir þér að leikmennirnir sem við keyptum eru álitnir mjög góðir,“ sagði Slot.

„Sum önnur lið vilja frekar fá 27 ára leikmenn sem eru tilbúnir en við höfum keypt leikmenn sem eru 21-22 ára og eru tilbúnir. Við bjuggum til þennan möguleika með því að selja leikmenn og vinna deildina án þess að kaupa neinn.“

Liverpool er með fullt hús stiga á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti deildarleikur liðsins er borgarslagur gegn Everton á Anfield í hádeginu á laugardaginn.

Leikur Liverpool og Atlético Madrid hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport 2. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×