Fótbolti

Gæti hrellt fé­lagið sitt eftir sex­tán daga í burtu að láni

Sindri Sverrisson skrifar
Nicolas Jackson var ánægður með að komast til Bayern.
Nicolas Jackson var ánægður með að komast til Bayern. Getty/M. Donato

Aðeins sextán dögum eftir að hafa loks fengið það í gegn að komast að láni frá Chelsea til Bayern München gæti Nicolas Jackson gert félaginu sem á hann grikk í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld.

Framherjinn virtist reyndar hafa verið sviptur tækifærinu til að komast til Bayern þegar Liam Delap meiddist, en á lokadegi félagaskiptagluggans komst skriður á málið að nýju og Jackson fékk ósk sína uppfyllta.

BBC segir í grein sinni að Jackson hafi á þessum tíma sagst hlakka til að mæta og vonandi skora gegn Chelsea, í Meistaradeildinni.

Það tækifæri gefst í München í kvöld, klukkan 19 að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay. Fylgst er með öllum leikjum í Meistaradeildarmessunni með Gumma Ben á Sýn Sport.

Hinn 24 ára Jackson náði aldrei að slá almennilega í gegn hjá Chelsea og stuðningsmenn liðsins bauluðu til að mynda á hann þegar liðið var undir stjórn Mauricio Pochettino. Hann virtist svo farinn að missa traust Enzo Maresca eftir rauðu spjöldin gegn Newcastle í lok síðustu leiktíðar og Flamengo á HM félagsliða í sumar.

Eftir komu Delap og Joao Pedro var minna pláss fyrir Jackson og hann endaði að lokum hjá þýska stórveldinu Bayern en þó aðeins að láni. 

Lánsupphæðin var reyndar mjög há, eða 14,3 milljónir punda, en vistaskiptin verða ekki varanleg nema að uppfylltum afar ströngum skilyrðum. Samkvæmt þýskum miðlum þyrfti Jackson að spila minnst 40 leiki, í að lágmarki 45 mínútur hvern, til að Bayern verði að kaupa hann fyrir 56,2 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×