Enski boltinn

Fimm sigurmörk á síðustu sjö mínútunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skallamark Virgils van Dijk í uppbótartíma tryggði Liverpool sigur á Atlético Madrid.
Skallamark Virgils van Dijk í uppbótartíma tryggði Liverpool sigur á Atlético Madrid. getty/Liverpool FC

Englandsmeistarar Liverpool hafa unnið alla fimm leiki sína í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu það sem af er tímabili. Í öllum fimm leikjunum hefur Liverpool skorað sigurmörk á elleftu stundu.

Liverpool vann 3-2 sigur á Atlético Madrid á Anfield í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni í gær. Virgil van Dijk skoraði sigurmark Rauða hersins þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Þetta er í þriðja sinn á tímabilinu sem Liverpool vinnur leik eftir að hafa misst niður tveggja marka forskot.

Í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar komst Liverpool í 2-0 gegn Bournemouth en fékk svo á sig tvö mörk. Federico Chiesa kom Englandsmeisturunum aftur yfir á 88. mínútu og Mohamed Salah gulltryggði svo sigurinn í uppbótartíma, 4-2.

Liverpool náði einnig tveggja marka forskoti gegn Newcastle United í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en Skjórarnir komu til baka. Þegar tíu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði svo hinn sextán ára Rio Ngumoha svo sigurmark Rauða hersins, 3-2. Hann er yngsti markaskorari í sögu Liverpool.

Dominik Szoboszlai tryggði Liverpool sigur á Arsenal með skoti beint úr aukaspyrnu á 83. mínútu í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Á laugardaginn vann Liverpool svo 0-1 sigur á nýliðum Burnley á Turf Moor þar sem Mohamed Salah skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

Næsti leikur Liverpool gegn grönnunum í Everton á Anfield í hádeginu á laugardaginn. Áhugavert verður að sjá hvort strákarnir hans Arnes Slot skora sigurmark undir blálokin sjötta leikinn í röð.


Tengdar fréttir

„Þessi viðbrögð eru auðvitað ekki í lagi“

Þjálfarinn Diego Simeone reifst við áhorfanda og fékk að líta rautt spjald þegar Liverpool vann Atlético Madrid 3-2 með marki í uppbótartíma. Hann sér eftir sínum viðbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×