Innlent

Kjósa um sam­einingu sveitar­fé­laganna í lok nóvember og desem­ber

Atli Ísleifsson skrifar
Björn Bjarki Þorsteinsson er sveitarstjóri Dalabyggð og segir áhuga vera í sveitarfélaginu fyrir sameiningu. Eðlilega heyrist þó efasemdaraddir.
Björn Bjarki Þorsteinsson er sveitarstjóri Dalabyggð og segir áhuga vera í sveitarfélaginu fyrir sameiningu. Eðlilega heyrist þó efasemdaraddir. Vísir

Sveitarstjórnir Dalabyggðar og Húnaþings vestra hafa samþykkt tillögu sérstakrar samráðsnefndar að íbúakosning fari fram í sveitarfélögunum tveimur um sameiningu dagana 28. nóvember til 13. desember næstkomandi.

Þetta var ákveðið að fundum sveitarstjórnanna tveggja á dögunum. Lagt er til að kosningaaldur í íbúakosningunum verði sextán ár. Tillagan var samþykkt samhljóða í báðum sveitarfélögum. 

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggð, segir í samtali við fréttastofu að það verði áhugavert að ná þessu samtali og að kanna hug íbúa varðandi mögulega sameiningu. Íbúafundir séu nú á dagskrá í báðum sveitarfélögunum til að ná fram þessu samtali.

„Þetta eru ámóta samfélög þannig að það sem okkur gengur til er að mynda stærra og öflugra sveitarfélag með meiri slagkraft, meðal annars gagnvart ríkisvaldinu,“ segir Björn Bjarki.

Hvammstangi er stærsti þéttbýliskjarninn í Húnaþingi vestra.Húnaþing vestra

Hvernig er það í Dölunum, er áhugi fyrir sameiningu?

„Já, mér heyrist það, en auðvitað heyrir maður efasemdaraddir. Eðlilega. Enda erum við ekki vön svona sameiningum. En ef af þessu yrðu Dalamenn áfram Dalamenn, Húnvetningar Húnvetningar og Hrútfirðingar Hrútfirðingar. Það myndi ekki breytast, en markmiðið væri að búa til öflugra sveitarfélag,“ segir Björn Bjarki.

Hann segir að ef meirihluti beggja vegna samþykki sameiningu þá verði komin bindandi niðurstaða um að sameina sveitarfélögin. „Þá færu fram kosningar til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags. En ef sameining yrði felld í öðru sveitarfélaginu, þá er leikurinn einfaldlega búinn.“

Íbúafjöldinn í Húnaþingi vestra var 1.203 í ársbyrjun en stærsti þéttbýliskjarninn þar er Hvammstangi. Í Dalabyggð var íbúafjöldinn 645 í ársbyrjun og er Búðardalur stærsti þéttbýliskjarninn,.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×