Íslenski boltinn

Rúnar Már og Amin missa af stór­leiknum upp á Skaga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Már í leik gegn Val fyrr í sumar.
Rúnar Már í leik gegn Val fyrr í sumar. Vísir/Diego

Rúnar Már Sigurjónsson og Amic Cosic missa af fallbaráttuslag ÍA og KR í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta. Alls voru sjö leikmenn úr Bestu deildinni úrskurðaðir í bann þegar Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands kom saman í ag.

ÍA tekur á móti KR í sannkölluðum sex stiga fallbaráttu slag á Akranesi þann 28. september næstkomandi. Rúnar Már hefur verið í lykilhlutverki hjá Skagamönnum sem hafa fundið taktinn en nú þarf Lárus Orri Sigurðsson þjálfari loks að breyta byrjunarliði sínu.

Á sama tíma hefur Cosic verið fastamaður í KR síðan hann kom frá Njarðvík í sumarglugganum.

Aðrir leikmenn úr Bestu karla sem voru dæmdir í bann eru Georg Bjarnason (Afturelding), Grétar Snær Gunnarsson (FH) og Marcel Römer (KA).

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, verður ekki á hliðarlínunni þegar Fram mætir Val í næstu umferð eftir að fá rautt spjald í tapinu gegn Víking á dögunum.

Í Bestu deild kvenna er Lily Farkas (Fram) á leið í bann fyrir uppsöfnuð gul spjöld. Candela González (FHL) er þá á leið í tveggja leikja bann fyrir að rífa í hár Freyju Stefánsdóttur (Víkingur) um liðna helgi.

„Hvað er hún að pæla!? Rífur Freyju bara niður á hárinu. Gjörsamlega galið og algjörlega óþarfi. Líklega ætlaði hún ekki að toga í hárið, maður trúir því allavega, að þetta hafi bara átt að vera peysutog. Afskaplega aulalegt engu að síður, alltaf hætta á hártogi og hún býður upp á þetta,“ sagði í lýsingu Vísis um atvikið.

Aðra dóma má sjá á vef KSÍ en það var nóg að gera hjá aganefndinni að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×