Fótbolti

Ó­heppnin eltir Gavi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gavi er einn yngsti leikmaður sem hefur spilað fyrir Barcelona.
Gavi er einn yngsti leikmaður sem hefur spilað fyrir Barcelona. getty/Alex Caparros

Gavi, miðjumaður Spánarmeistara Barcelona, verður frá keppni í allt að fimm mánuði vegna hnémeiðsla.

Gavi lék fyrstu tvo leiki Barcelona á tímabilinu en meiddist á hægra hné á æfingu í síðasta mánuði.

Óttast var að Gavi hefði slitið krossband í hné, eins og hann gerði fyrir tveimur árum, en svo reyndist ekki vera. Hann þurfti þó að fara í aðgerð og verður frá næstu 4-5 mánuðina.

Gavi, eða Pablo Martín Páez Gavira eins og hann heitir fullu nafni, var frá í ellefu mánuði eftir að hann sleit krossband í hné í landsleik með Spáni í nóvember 2023.

Á síðasta tímabili lék Gavi 42 leiki fyrir Barcelona í öllum keppnum. Liðið varð tvöfaldur meistari á Spáni.

Gavi varð sá yngsti til að spila landsleik fyrir Spán haustið 2021 en samherji hans hjá Barcelona, Lamine Yamal, hefur slegið það met. Gavi hefur alls leikið 28 landsleiki og skorað fimm mörk.

Hinn 21 árs Gavi er samningsbundinn Barcelona til 2030.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×