Enski boltinn

Hjólhestur hjá Palhinha og markaveisla hjá Skjórunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Joao Palhinha skoraði úr hjólhestaspyrnu fyrir Tottenham gegn Doncaster.
Joao Palhinha skoraði úr hjólhestaspyrnu fyrir Tottenham gegn Doncaster. Mike Hewitt/Getty Images

Þrír leikir fóru fram í enska deildabikarnum og úrvalsdeildarliðin unnu í öllum tilfellum. Joao Palhinha skoraði úr hjólhestaspyrnu fyrir Tottenham. Phil Foden skoraði og lagði upp fyrir Mancester City. Newcastle lék við hvern sinn fingur gegn Bradford.

Tottenham - Doncaster 3-0

Tottenham tók forystuna eftir tæpan stundarfjórðung með frábæru marki. Joao Palhinha skoraði með hjólhestaspyrnu þegar gestunum mistókst að hreinsa boltann burt eftir hornspyrnu.

Skömmu síðar fékk Jay McGrath fasta fyrirgjöf í sig og varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Svo dró ekki aftur til tíðinda fyrr en í uppbótartíma þegar Brennan Johnson skoraði þriðja markið fyrir Tottenham eftir stoðsendingu Lucas Bergvall.

Huddersfield - Manchester City 0-2

Manchester City sótti 2-0 sigur, að miklu leiti þökk sé Phil Foden. Hann skoraði snemma eftir samspil við Divine Mukasa, sem tókst að leggja upp mark í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Foden lagði svo annað markið upp fyrir Savinho í seinni hálfleik.

Savinho, Phil Foden og Divine Mukasa komu að mörkum Manchester City. Matt McNulty/Getty Images

Newcastle - Bradford 4-1

Ríkjandi meistarar Newcastle unnu öruggan 4-1 sigur gegn Bradford á St. James‘ Park. Brasilíumaðurinn Joelinton skoraði fyrsta markið. Samlandi hans og makker á miðjunni, Bruno Guimares, lagði annað markið upp fyrir danska framherjann William Osula.

Brasilíumennirnir tengdu síðan saman í þriðja markinu, þegar Guimares lagði upp fyrir Joelinton, sem var að skora tvennu í fyrsta sinn í fimm ár.

Andy Cook minnkaði muninn fyrir Bradford en hann er uppalinn hjá Newcastle.

William Osula skoraði svo fjórða markið, og sitt annað í leiknum, til að gera algjörlega út af við leikinn.

William Osula og Joelinton skoruðu báðir tvö mörk. Stu Forster/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×