Fótbolti

Þjálfari Daníels og Arnórs rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen hóf meistaraflokksferil sinn undir stjórn Henriks Rydström en fær nú nýjan þjálfara.
Daníel Tristan Guðjohnsen hóf meistaraflokksferil sinn undir stjórn Henriks Rydström en fær nú nýjan þjálfara. malmoff.se

Þrátt fyrir að hafa gert Malmö að sænskum meisturum í fótbolta síðustu tvö ár í röð hefur Henrik Rydström nú verið rekinn úr starfi.

Auk tveggja Svíþjóðarmeistaratitla vann Malmö sænska bikarinn í fyrra og komst í úrslitaleikinn í ár, undir stjórn Rydström.

Liðið er hins vegar aðeins í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í ár, án sigurs í síðustu fjórum leikjum, og heilum átján stigum á eftir toppliði Mjällby þegar sex umferðir eru eftir.

Mikil hætta er á að liðið missi af Evrópukeppni á næstu leiktíð en liðið er núna í Evrópudeildinni og tapaði þar fyrsta leik fyrir Ludogorets frá Búlgaríu á heimavelli, 2-1 í fyrakvöld. Eftir tapið var ekki að heyra að Rydström hefði neinn áhuga á að hætta:

„Ég hef ótrúlega mikinn metnað og áhuga á því að vera hluti af liðinu þegar við náum að snúa þessu gengi við,“ sagði Rydström.

Fyrsti þjálfari Daníels í meistaraflokki

Aðstoðarmaður Rydström var einnig rekinn og það er ljóst að þeir Daníel Tristan Guðjohnsen og Arnór Sigurðsson munu fá nýjan þjálfara á næstunni. Samkvæmt tilkynningu Malmö er vinnan við það hafin.

Daníel, sem er 19 ára og nýorðinn A-landsliðsmaður, lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki 2023, undir stjórn Rydström sem hafði tekið við Malmö eftir að íslenski ríkisborgarinn Milos Milojevic var rekinn. 

Rydström fékk svo Arnór í sitt lið í febrúar síðastliðnum eftir að Arnór hafði fengið samningi sínum við Blackburn rift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×