Skoðun

Stöndum saman gegn fjölþáttaógnum

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að alvarlegum og vaxandi árásum á mikilvæga innviði í Evrópu. Í Kaupmannahöfn þurfti að loka alþjóðaflugvellinum vegna drónaflugs, forsætisráðherra Danmerkur kallaði það alvarlegustu árás á danska innviði til þessa. Í Eistlandi brutust rússneskar orrustuþotur inn í lofthelgina og neituðu að hlýða fyrirmælum. Í Póllandi voru rússneskir drónar skotnir niður í lofthelgi landsins, forsætisráðherrann sagði að staðan hefði aldrei verið jafn alvarleg frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Kaja Kallas, sagði að allt benti til þess að um viljaverk hefði verið að ræða – að markmið Pútíns væri að storka og að hann kæmi til með að ganga sífellt lengra vegna þess að viðbrögðin hingað til hefðu ekki verið nægilega sterk.

Drónaárásir, lofthelgisrof, tölvuárásir og upplýsingaóreiða eru fjölþáttaógnir sem beinast gegn öryggi okkar allra. Markmiðið með þeim er ekki aðeins að skaða innviði heldur einnig að sá vantrausti og skapa sundrung ríkja á milli. Samstaðan er okkar helsti styrkleiki og tilgangurinn að rjúfa hana. Það má ekki takast, Rússum má aldrei takast að hræða okkur frá því að standa með Úkraínu.

Brot á alþjóðalögum má aldrei láta óátalin, öllu heldur verður að fylgja þeim eftir með afgerandi viðbrögðum. Við Íslendingar vitum manna best að framtíð okkar og öryggi byggist á því að alþjóðalög séu virt. Sem herlaus þjóð í Norður-Atlantshafi eigum við allt undir því að sameiginlegar leikreglur haldi.

Stofnaðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu – NATO – tryggir okkur stöðu innan öflugasta varnarsamstarfs heims. Þá er varnarsamningurinn við Bandaríkin mikilvæg öryggisstoð sem þarf að rækta og efla. Við verðum að standa með félögum okkar á Norðurlöndunum og öðrum NATO-ríkjum.

Það er einmitt á tímum sem þessum sem við verðum að sýna festu, standa með bandamönnum okkar og standa vörð um grundvallargildi okkar. Ef við látum ógnir og árásir sundra okkur þá hafa gerendur náð sínu markmiði. Ef við hins vegar stöndum saman þá verður tiltrúin á lýðræði, frelsi og alþjóðalög sterkari en nokkru sinni fyrr.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×