Tíska og hönnun

Fann ástina í ör­laga­ríkum kjól

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Myndlistarkonan og tískudrottningin Auja Mist ræddi við blaðamann um klæðaburð.
Myndlistarkonan og tískudrottningin Auja Mist ræddi við blaðamann um klæðaburð. Aðsend

„Ég trúi á mikilvægi þess að gera eitthvað skapandi á hverjum degi. Að klæða sig upp er hin fullkomna útrás fyrir sköpun,“ segir Auður Mist Eydal, betur þekkt sem Auja Mist. Auja er 24 ára gömul myndlistarkona úr vesturbænum sem ber af í klæðaburði. Blaðamaður fékk að taka púlsinn á hennar persónulega stíl, fataskáp og skemmtilegum tískusögum.

Auja er fædd árið 2000, með stúdentspróf úr MR og BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur komið víða við í listheiminum og starfar sömuleiðis í tískuversluninni Andrá sem hefur sömuleiðis sett um listasýningar. 

Auja Mist er ofurpæja og tískudrottning. Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Klæðaburður hefur alltaf verið leið fyrir mig til þess að tjá mig og prófa mismunandi útgáfur af sjálfri mér. Ég hef prófað alls konar týpur og oft breytist klæðaburðurinn og hárgreiðslan með hverri týpu.

Föt eru fyrstu kynni annarra við þig sem manneskju og mér finnst tilvalið að leika mér að þessum kynnum. Hvort sem ég sé meira masculine eða feminine, flippuð eða stílhrein. 

Þegar allt kemur til alls er tískan gerð til þess að leika sér!
Húðflúrin eru stór partur af stílnum hennar Auju. Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Fataskápurinn minn er í sífelldri þróun, ég leyfi flík sjaldan að liggja í myrkrinu til lengri tíma. Frekar gef ég hana frá mér og leyfi einhverjum öðrum að klæðast henni.

Eini fastinn er ég, minn líkami og þá húðflúrin mín. Húðflúrin mín eru uppáhalds aukahluturinn minn - og kannski zebra crocs-arnir mínir.

Zebra crocks skórnir eru í miklu uppáhaldi hjá Auju. Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Það fer algjörlega eftir tilefninu. 

Stundum dreymir mig fyrir fram outfit, stundum er ég í nokkra daga að ákveða klæðnað fyrir sérstakan viðburð, stundum hef ég keypt flíkur til þess að fylgja týpu, sem ég var fyrir löngu búin að plana.

Dags daglega hendi ég þó vanalega einhverju saman.

Skemmtilegt augnablik hjá skvísum.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Það er mikil leikgleði í stílnum mínum. Hann er afslappaður en líka uppábúinn. Afi og amma meet the club.

Auja Mist teinótt á dansgólfinu og heldur alltaf í leikgleðina.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Ég fylgi hárgreiðslunni minni að hverju sinni. Þegar ég var unglingur var ég snoðuð og þar af leiðandi rómantísk í klæðaburði. Ég var mikið í hælum, blúndu, silki, gulli og perlum.

Auja Mist snoðuð skvís í MR.Aðsend

Svo síkkaði hárið og þá fór ég meira í jakkaföt, silfur, stórar buxur og flata skó. Núna er ég í millisídd og leik mér með alls konar blöndur.

Með síðara hár og bindi í trylltri kápu.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ég trúi á mikilvægi þess að gera eitthvað skapandi á hverjum degi.

Að klæða sig upp er hin fullkomna útrás fyrir sköpun. Svo vinn ég auðvitað í hinni fallegu Andrá Reykjavík þar sem það er einstaklega skemmtilegt að mæta flottur til fara í vinnuna.

Auja Mist vinnur í tískuversluninni Andrá.Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Að leiðast aldrei og að vera sönn sjálfri mér.

Auju leiðist ekki í klæðaburði. Hér rokkar hún sígarettukjóll eftir Ragnheiði Írisi vinkonu hennar og andagift.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Alls staðar að. Aðallega frá fólkinu í kringum mig og þeim sem ég hef búið með. 

Þeir sem þekkja mig vita auðvitað að móðir mín, Sissa, er ein mesta skvísa og töffari bæjarins.

Ég hef oft stolið flíkum frá henni, en líka frá pabba og litla bróður mínum.

Allar vinkonur mínar sem ég hef búið með hafa einnig mótað minn stíl með því að leyfa mér að laumast í fataskápana þeirra, það hefur verið mér svo dýrmætt.

Upp á síðkastið hef ég verið að stelast í flíkur kærastans míns. Annars eru stíl-íkonin mín Francoise Hardy, Edie Sedgwick, Marlene Dietrich, David Bowie og Chloe Sevigny.

Auja Mist lítil með Sissu ofurskvísu mömmu.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Kannski bara að minna fólk á að vera ábyrgðarfullir neytendur eftir bestu getu. 

Að kaupa ekki of mikið af hraðtísku, einblína frekar að kaupa notaðar eða vistvænar flíkur. Og að sniðganga Ísrael.

Auja í rauðum kjól með einstök húðflúr. Hún hvetur fólk til þess að vera ábyrgðarfullir neytendur eftir bestu getu. Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Lukkuflíkin mín er bleiki Paloma Wool hettukjólinn minn. 

Ég hef verið í honum við þrjú tilefni; Útskrift úr myndlistadeild LHÍ, kvöldið þegar ég kynntist fyrst kærastanum mínum og á opnunarpartýi Feneyjartvíæringsins árið 2024.

Hver veit hvar ég verð stödd í heiminum næst þegar ég gríp í hann.

Bleiki örlagakjóllinn!Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir haustið?

Ég er búin að vera undir miklum áhrifum frá ævintýrum, riddarasögum og vampírugoðsögnum. Það er allavega heitt fyrir mér einmitt núna.

Auja er heit fyrir ævintýrum, riddarasögum og vampírugoðsögnum í haust.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

„YOLO - you only live once.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.