Enski boltinn

„Í DNA okkar Sunderland-manna að þola þennan mann ekki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Þorri Gunnarsson heldur með Sunderland, erkifjendum Newcastle United þar sem Alan Shearer er í guðatölu.
Sigurður Þorri Gunnarsson heldur með Sunderland, erkifjendum Newcastle United þar sem Alan Shearer er í guðatölu. getty/rúv

Eins og sönnum Sunderland-manni sæmir hefur útvarpsmaðurinn Sigurður Þorri Gunnarsson lítið álit á Newcastle-goðinu Alan Shearer.

Siggi var gestur í síðasta þætti VARsjárinnar. Þar ræddi hann um liðið sitt í enska boltanum, Sunderland, en hann byrjaði að halda með því þegar hann bjó í borginni og var í námi þar.

Þeir Stefán Árni Pálsson og Albert Brynjar Ingason fengu Sigga til að velja þá leikmenn í enska boltanum sem hann gjörsamlega þolir ekki. Og Shearer var að sjálfsögðu þar á lista. Sunderland hefur farið vel af stað á tímabilinu en Sigga finnst Shearer full spar á hrósið í garð Svörtu kattanna.

„Við erum með ellefu stig eftir fyrstu sex umferðirnar og hann getur varla sagt: Þetta er bara ótrúlega flott hjá þeim. Hann getur það ekki. Það er bara í DNA okkar Sunderland-manna að þola þennan mann ekki,“ sagði Siggi.

Klippa: VARsjáin - skítlisti Sigga

Tveir fyrrverandi framherjar Liverpool voru á listanum hjá Sigga, þeir Robbie Fowler og Luis Suárez, sem og núverandi leikmaður Sunderland, Reinildo Mandava. Hann fékk rautt spjald í þarsíðasta leik Sunderland, 1-1 jafntefli gegn Aston Villa.

„Pungsparkarinn er kominn á skítlistann hjá mér því hann sparkaði í punginn á Matty Cash og fór svo að væla yfir því að vera sendur út af. Ég þoli ekki vælukjóa,“ sagði Siggi.

Sunderland sneri aftur í ensku úrvalsdeildina í haust eftir átta ára fjarveru. Liðið hefur farið vel af stað og er í 5. sæti deildarinnar. Næsti leikur Sunderland er gegn Manchester United á Old Trafford á laugardaginn.

Innslagið úr VARsjánni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×