Körfubolti

Afar ó­lík við­brögð hjá Hlyni Bærings og Benna Gumm eftir byrjun þáttarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson var ekkert alltof sáttur með Stefán Árna Pálsson og félaga í upphafi þáttarins.
Benedikt Guðmundsson var ekkert alltof sáttur með Stefán Árna Pálsson og félaga í upphafi þáttarins. Sýn Sport

Bónus Körfuboltakvöld verður á dagskránni í kvöld þar sem gerðir verða upp leikir í fyrstu umferð Bónus deildar karla. Þetta verður þó ekki fyrsti þáttur vetrarins.

Stefán Árni Pálsson og sérfræðingar hans hituðu upp fyrir deildina í sérstökum þætti þar sem menn veltu fyrir sér komandi vetri.

Upphaf þáttarins var þó tileinkað sögulegum Íslandsmeistaratitli Stjörnumanna á síðustu leiktíð.

Þátturinn hófst nefnilefa á myndbandi um úrslitakeppni Stjörnumanna í vor þar sem Stjarnan varð Íslandsmeistari i fyrsta sinn.

Klippa: Upphafsmyndband Bónus Körfuboltakvölds og viðbrögðin

Hlynur Bæringsson endaði þá feril sinn með því að lyfta Íslandsbikarnum. Hann verður áfram í kringum körfuboltann því hann er nýr sérfræðingur hjá Bónus Körfuboltakvöldi.

Benedikt Guðmundsson kemur einnig nýr inn en hann hætti sem þjálfari Tindastóls eftir tapið í oddaleiknum um titilinn.

Það voru því afar ólík viðbrögð hjá Hlyni Bærings og Benna Gumm eftir upphafssenu Körfuboltakvölds. Hlynur fékk að horfa á eina af bestu stundum ferilsins en Benedikt örugglega eina þá verstu.

„Hlynur, það var nú gaman fyrir þig að horfa á þetta myndband sem við vorum að horfa á,“ sagði Stefán Árni Pálsson.

„Takk kærlega fyrir þetta. Þetta gírar mig verulega upp,“ sagði Hlynur en þetta var ekki eins skemmtilegt fyrir annan mann í settinu.

„Benni, hvernig fannst þér þetta myndband,“ spurði Stefán Árni og glotti.

„Ætluðum við ekki að tala um næsta tímabil eða erum við í einhverjum söguskýringum,“ sagði Benedikt og sá enga ástæðu til að fagna þessu upphafi þáttarins.

Þeir Hlynur og Benedikt koma örugglega öflugir inn í Körfuboltakvöldsteymið í vetur en hér fyrir ofan má sjá þessa upphafssenu og viðbrögðin.

Bónus Körfuboltakvöld hefst klukkan 21.15 í kvöld en á undan verður leikur Grindavíkur og Njarðvíkur sýndur í beinni útsendingu á SÝN Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×