Íslenski boltinn

„Verðum nú að fagna þessu að­eins“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sammie Smith var hress og kát eftir að Blikakonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.
Sammie Smith var hress og kát eftir að Blikakonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Vísir

„Þetta er svo góð tilfinning. Þetta er súrrealískt,“ segir Samantha Smith, leikmaður Breiðabliks, eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn í kjölfar sigurs á Víkingi í kvöld.

„Við héldum að þetta kæmi, það var aðeins á eftir áætlun, en þetta lið er ótrúlegt. Ég var viss um að þetta lið myndi gera vel í ár. Ég er ótrúlega stolt af liðinu mínu,“ segir Samantha jafnframt.

Breiðablik hafði tvö tækifæri til að tryggja sér titilinn í aðdraganda þess í kvöld en töp gegn Stjörnunni og Þrótti gáfu þriðja tækifærið í kvöld og það tókst loks.

„Við vorum frústreraðar eftir þá leiki, að sjálfsögðu. En við mættum inn í þennan leik með það fyrir stafni að skemmta okkur. Að njóta okkar og spila sem lið. Að stressa sig ekki. Við komum til baka og þetta er magnað,“ segir Sammie.

„Það var smá stress í lokin en við vissum að við kæmum þessu yfir línuna,“ segir Sammie en í lok leiks skipti mögnuð markvarsla Kate Devine sköpum.

„Kate er ótrúleg. Hún er sterkasta manneskja sem ég þekki. Við hefðum ekki getað gert þetta án hennar. Hún er best.“

Hvaða þýðingu hefur þetta?

„Þetta hefur svo mikla þýðingu fyrir félagið og allar stelpurnar í stúkunni. Þær munu spila um titla í framtíðinni og vinna sama skjöld. Ég er mjög ánægður að vera fyrirmynd fyrir þær,“ segir Sammie.

Evrópuleikur er fram undan í vikunni. En þarf ekki að fagna?

„Við sjáum til,“ segir Sammie og glottir. „Það þarf að einblína á næstu verkefni en við verðum nú að fagna þessu aðeins.“

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×