Sport

Niður­brotin Ey­gló keppir ekki á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir er Evrópumeistari í -71 kg flokki í ólympískum lyftingum.
Eygló Fanndal Sturludóttir er Evrópumeistari í -71 kg flokki í ólympískum lyftingum. vísir/vpe

Eygló Fanndal Sturludóttir keppir ekki á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum vegna meiðsla.

Í færslu á Instagram greinir Eygló frá þessum ótíðindum. Þar segist hún hafa verið að glíma við pirrandi meiðsli undanfarnar vikur og hafi eiginlega ekki getað lyft vegna þeirra.

Eygló segist hafa gert allt sem í hennar valdi stóð til að verða klár fyrir HM en ljóst sé að batinn muni taka lengri tíma en hún vonaðist eftir. Því muni hún ekki keppa á HM.

Lyftingakonan öfluga kveðst vera niðurbrotin yfir þessari niðurstöðu, hún sé sár og svekkt að geta ekki sýnt hvað í henni býr, en líkaminn þurfi bara lengri tíma til að jafna sig áður en hún geti farið að lyfta á ný. Hún segist aldrei hafa ímyndað sér að hún saknaði lyftinganna svona mikið en þetta sé áminning um það hversu mikið hún elski það sem hún geri.

Eygló varð Evrópumeistari í -71 kg flokki í apríl og þá vann hún EM U-23 ára í tvígang, 2022 og 2024.

Eygló var valin íþróttakona Reykjavíkur á síðasta ári og var í 3. sæti í valinu á Íþróttamanni ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×