Enski boltinn

Arsenal gæti spilað á Wembley á meðan Emitrates fær Real Madrid upp­færslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emirates-leikvangurinn, heimavöllur Arsenal, gæti stækkað mikið á næstu árum.
Emirates-leikvangurinn, heimavöllur Arsenal, gæti stækkað mikið á næstu árum. Getty/David Price

Emirates-leikvangurinn, heimavöllur Arsenal, er að verða tuttugu ára á næsta ári og hann gæti fengið risauppfærslu í afmælisgjöf.

Heimavöllur Arsenal er nú fimmti stærsti leikvangur knattspyrnufélags á Englandi en félagið vill stækka leikvanginn til að halda í því hin stóru lið ensku úrvalsdeildarinnar.

Breska ríkisútvarpið fjallar um þetta en segir að viðræðurnar séu samt enn á frumstigi. Engin ákveðin áætlun hefur verið valin en möguleiki á að spila heimaleiki á Wembley-leikvanginum á meðan framkvæmdir standa yfir hefur verið ræddur.

Arsenal hefur spilað heimaleiki áður á Wembley en það var á gamla Wembley-leikvanginum í Meistaradeildinni tímabilin 1998–99 og 1999–2000.

Það muna líka margir eftir því að erkióvinirnir í Tottenham spiluðu alla „heimaleiki“ sína á Wembley tímabilið 2017–18 og mestallt tímabilið 2018–19 á meðan nýr leikvangur þeirra var í byggingu.

Á næsta ári verða liðin tuttugu ár síðan Arsenal flutti á Emirates frá Highbury.

Talið er að í viðræðunum hafi verið rætt um möguleikann á að breyta sætaskipan til að bæta við þúsundum sæta, þar sem Arsenal leitast við að halda í við stærstu leikvanga landsins. Leikvangurinn tekur nú 60.704 manns í sæti en gæti tekið yfir sjötíu þúsund manns eftir framkvæmdir. Það myndi gera leikvanginn að stærsta félagsvelli í London.

Samkvæmt frétt í Telegraph þá er Arsenal að skoða svipaðar framkvæmdir og voru gerðar á Santiago Bernabeu, heimavelli Real Madrid.

Lykilatriðið í því væri að gera stúkurnar brattari og bæta við fleiri sætum þannig. Heildarumfang leikvangsins myndi ekki stækka mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×