Handbolti

ÍBV og Valur ein á toppnum eftir há­spennu í Breið­holti

Sindri Sverrisson skrifar
Heimkoma Söndru Erlingsdóttur hefur skipt sköpum í velgengni ÍBV það sem af er leiktíð.
Heimkoma Söndru Erlingsdóttur hefur skipt sköpum í velgengni ÍBV það sem af er leiktíð. ÍBV

Íslandsmeistarar Vals eru ásamt ÍBV á toppi Olís-deildar kvenna í handbolta, með fjóra sigra úr fimm leikjum, eftir úrslitin í leikjunum þremur í kvöld.

Valskonur höfðu betur í uppgjöri stórveldanna þegar þær unnu Fram, 28-24, á Hlíðarenda í kvöld. Fram var þó 16-15 yfir í hálfleik en fljótlega í seinni hálfleiknum náði Valur forystunni og sá til þess að aldrei yrði of mjótt á mununum á lokakaflanum.

Lovísa Thompson fagnaði landsliðssæti með sjö mörkum og var markahæst hjá Val en Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir kom næst með sex mörk úr sex skotum, samkvæmt tölfræði HB Statz. Hjá Fram voru Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín og Hulda Dagsdóttir markahæstar með fimm mörk hvor.

Sandra og Birna sterkar en lítið skorað á Ásvöllum

ÍBV vann góðan sigur gegn Haukum í Hafnarfirði, 20-18, eftir að hafa náð fimm marka forskoti þegar fimm mínútur voru eftir. Haukar skoruðu þrjú síðustu mörkin en það dugði skammt.

Landsliðskonurnar Sandra Erlingsdóttir og Birna Berg Haraldsdóttir voru að vanda áberandi í liði ÍBV og skoraði Sandra sjö mörk en Birna fimm. Ragnheiður Ragnarsdóttir var markahæst Hauka með fjögur mörk.

ÍR vann upp fjögurra marka forskot í lokin

Mesta spenna kvöldsins var þó í Breiðholti þar sem ÍR-ingar unnu dísætan sigur gegn KA/Þór, 30-29, í slag liða sem byrjað hafa tímabilið afar vel. Ekkert mark var skorað á síðustu fjórum mínútum leiksins, eða eftir að Susanne Denise minnkaði muninn í eitt mark fyrir KA/Þór.

KA/Þór hafði verið fjórum mörkum yfir, 28-24, skömmu áður og sigur ÍR-inga því afar sætur.

Sara Dögg Hjaltadóttir fór á kostum fyrir heimakonur og skoraði 11 mörk, og Vaka Líf Kristinsdóttir skoraði átta. Hjá gestunum var Tinna Valgerður Gísladóttir markahæst með sjö mörk.

ÍR og KA/Þór, sem vann fyrstu þrjá leiki sína, eru því með sex stig hvort, næst á eftir toppliðum Vals og ÍBV. Fram og Haukar eru með fimm stig en Stjarnan og Selfoss eru enn stigalaus og mætast annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×