Innlent

Múhameð fær blessun manna­nafna­nefndar

Kjartan Kjartansson skrifar
Íslenskir Liverpool-aðdáendur geta nú loksins nefnt syni sína í höfuðið á Mohamed Salah.
Íslenskir Liverpool-aðdáendur geta nú loksins nefnt syni sína í höfuðið á Mohamed Salah. Getty

Karlmannsnafnið Múhameð er á meðal fjögurra eiginnafna sem mannanafnanefnd samþykkti í vikunni. Kvenmannsnöfnin Latýna og Khanom hlutu hins vegar ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

Mannanafnanefnd kvað upp níu úrskurði um nöfn á þriðjudag. Auk þess að samþykkja Múhameð fyrir drengi lagði hún blessun sína yfir kvenmannsnöfnin Tenchi, Ivy, Ýri og Meryem. Þá féllst hún á föðurkenninguna Ísaksdóttir.

Beiðni um karlmannsnafnið Jaokhun var hafnað þar sem ritháttur þess samræmist ekki almennum ritreglum íslensks máls. Kvenmannsnafninu Khanom var hafnað með sömu rökum.

Ástæða þess að kvenmannsnafninu Latýnu var hafnað var sú að það væri borið fram eins og latína. Heiti tungumála hefðu ekki verið notuð sem eiginnöfn á Íslandi. Mannanafnanefnd hafnaði beiðni um að skrá nafnið Latína með úrskurði fyrr á þessu ári.

Hvað varðar nafnið Tenchi kom til álita hvort það væri ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls vegna þess að bókstafurinn c er ekki í íslenska stafrófinu. Aðeins væri hægt að samþykkja það ef hefð væri fyrir þessum rithætti. Studdist nefndin við vinnureglur sem kveða meðal annars á um að hægt sé að gera undantekningar fyrir rithátt sé hann gjaldgengur í öðru tungumáli. Vísaði nefndin til þess að Tenchi væri rótgróið japanskt tökunafn og ritað með þessum hætti í enskumælandi löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×