Fótbolti

Mbappé segir fólki að láta Lamine Yamal í friði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal reynir að ná boltanum af Kylian Mbappé í landsleik Spánar og Frakklands.
Lamine Yamal reynir að ná boltanum af Kylian Mbappé í landsleik Spánar og Frakklands. Getty/Harry Langer

Franska stórstjarnan Kylian Mbappé þekkir það vel að komast ungur í sviðsljósið og Frakkinn hefur gagnrýnt hið mikla sviðsljós sem beinist að Lamine Yamal.

Mbappé skorar á gagnrýnendur að „láta strákinn í friði“ en segir ungstjörnu Barcelona og spænska landsliðsins vera „stútfullan af hæfileikum“.

Hinn átján ára gamli Lamine vann Kopa-bikarinn í síðasta mánuði sem besti leikmaður heims undir 21 árs aldri og var þá að vinna annað árið í röð. Strákurinn hefur sætt gagnrýni að undanförnu vegna einkalífs síns.

„Það sést að [Lamine] hefur ástríðu fyrir fótbolta og það er það eina sem hann má ekki missa,“ sagði Mbappé við Jorge Valdano í viðtali á Movistar á sunnudag.

„Annað er bara líf hans. Fólk talar um einkalíf hans, en mér finnst að fólk ætti að láta hann í friði,“ sagði Mbappé.

Lamine hefur skorað tvö mörk og gefið þrjár stoðsendingar fyrir Barcelona í spænsku deildinni á þessu tímabili, sem er hans þriðja sem fastamaður í aðalliðinu. Hann lék sinn fyrsta leik í spænsku deildinni árið 2023, aðeins 15 ára gamall.

Mbappé var annað undrabarn en hann lék fyrst í frönsku deildinni fyrir Monaco sextán ára gamall.

„[Lamine] er frábær fótboltamaður en í lífinu er hann átján ára strákur. Allir gera mistök átján ára. Hann mun lifa sínu lífi. Við ættum aðeins að horfa á það sem hann gerir á vellinum. Annað skiptir ekki máli, svo lengi sem það er ekkert alvarlegt. Hann er leikmaður með gríðarlega hæfileika,“ sagði Mbappé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×