Innlent

Um­boðs­maður snuprar stjórn­völd

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristín Benediktsdóttir er Umboðsmaður Alþingis.
Kristín Benediktsdóttir er Umboðsmaður Alþingis. Hulda Margrét Óladóttir

Umboðsmaður Alþingis les stjórvöldum pistilinn í niðurstöðum frumkvæðisathugunar á því hvort fyrirkomulag eða framkvæmd réttindagæslu fyrir fatlað fólk hafi verið í samræmi við efni og framkvæmd samnefndra laga.

Greint er frá málinu á vefsíðu Umboðsmanns, þar sem segir að af upphaflegum svörum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, sem nú heitir félags- og húsnæðismálaráðuneytið, við fyrirspurnum embættisins hafi hvorki verið hægt að greina afstöðu ráðuneytisins né veittar skýringar á því hvort og þá hvaða vandkvæði væru við framkvæmd laganna.

Umboðsmaður áréttaði fyrirspurnir sínar í framhaldinu, í apríl 2024, en þrátt fyrir ítrekanir bárust ekki svör fyrr en í febrúar á þessu ári. Í millitíðinni var frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands samþykkt á Alþingi, sem hafði í för með sér að það fyrirkomulag sem Umboðsmaður hafði til athugunar er ekki lengur til staðar.

Athuguninni er því lokið.

„Vegna samskiptanna við ráðuneytið áréttaði umboðsmaður að ákvæði í lögum um umboðsmann veita henni víðtækan rétt til að krefja stjórnvöld um upplýsingar og skýringar,“ ítrekar Umboðsmaður í bréfi sínu til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins.

„Forsenda þess að umboðsmaður geti rækt það eftirlitshlutverk með stjórnsýslunni sem henni er ætlað sé að stjórnvöld svari fyrirspurnum og láti henni í té fullnægjandi upplýsingar og skýringar sem óskað er eftir innan hæfilegs tíma.“

Þess má geta að  ráðherra á þessum tíma var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þingmaður Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×