Enski boltinn

„Skora á yfir­völd að aftur­kalla þessa hug­lausu á­kvörðun“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Maccabi Tel Aviv mættu til Grikklands í september.
Stuðningsmenn Maccabi Tel Aviv mættu til Grikklands í september. EPA/ACHILLEAS CHIRAS

Leikur Aston Villa og ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni í fótbolta gæti farið fram án aðkomu stuðningsmanna gestaliðsins.

Lögreglan í Birmingham hefur flokkað leikinn sem áhættuleik og ráðgjafarnefnd á vegum sveitarfélagsins hefur beðið Aston Villa um að banna stuðningsmönnum gestaliðsins aðgang að leiknum.

„Félagið er í stöðugu sambandi við Maccabi Tel Aviv og yfirvöld á staðnum í gegnum þetta ferli. Öryggi stuðningsmanna sem ætla að mæta á leikinn er í forgangi“, skrifar Aston Villa á heimasíðu sína.

Gideon Sa'ar, utanríkisráðherra Ísraels, er meðal þeirra sem bregðast við ákvörðuninni.

„Þetta er skammarleg ákvörðun. Ég skora á yfirvöld að afturkalla þessa huglausu ákvörðun“, skrifar Sa'ar á X.

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands telur einnig að stuðningsmenn Maccabi eigi að fá aðgang að leikvanginum.

„Þetta er röng ákvörðun. Við munum ekki líða gyðingahatur á götum okkar. Hlutverk lögreglunnar er að tryggja að allir fótboltaáhugamenn geti notið leiksins án þess að óttast ofbeldi eða hótanir“, skrifar Starmer á X.

Kemi Badenoch, leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi, telur hættulegt að banna stuðningsmönnum gestaliðsins aðgang að leiknum.

– Það myndi senda hræðileg skilaboð, segir hún. Leikurinn fer fram 6. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×