Sport

Ís­land eignaðist tvo heims­meistara í Höfða­borg í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elsa Pálsdóttir og Sæmundur Guðmundsson hafa bæði unnið tvo heimsmeistaratitla á nokkrum dögum.
Elsa Pálsdóttir og Sæmundur Guðmundsson hafa bæði unnið tvo heimsmeistaratitla á nokkrum dögum. @kraftlyftingasamband_islands

Elsa Pálsdóttir og Sæmundur Guðmundsson urðu í dag bæði heimsmeistarar öldunga í kraftlyftingum með búnaði á heimsmeistaramótinu í Höfðaborg í Suður-Afríku. Elsa setti líka heimsmet.

Bæði voru þau að verða heimsmeistarar í annað skiptið á nokkrum dögum því þau líka heimsmeistarar öldunga í klassískum kraftlyftingum á sama stað.

Sæmundur var fyrstur á pallinn í dag. Í hnébeygju opnaði hann örugglega á 150 kílóum og önnur hnébeygjan hans var jafnörugg með 160 kíló á stönginni. Þriðja hnébeygjan var með 172,5 kíló á stönginni og var tilraun til Íslandsmets. Því miður vildi hún ekki upp að þessu sinni.

Í bekkpressunni opnaði Sæmundur á þægilegum 100 kílóum, hækkaði í annarri lyftu upp í 110 kíló sem fór hratt upp. Í þriðju bekkpressu reyndi Sæmundur við 120 kíló og þar með að bæta eigið Íslandsmet. Það vantaði aðeins herslumuninn að hann næði að klára hana.

Sæmundur opnaði í réttstöðulyftu á 175 kílóum sem flugu upp. Sama gilti um lyftu tvö með 185 kíló á stönginni. Í lokalyftunni hækkaði hann í 200 kíló sem var tilraun til Íslandsmets en því miður náði hann ekki að klára lyftuna.

Samanlagður árangur varð 455 kíló en sá árangur tryggði Sæmundi gull og heimsmeistaratitil.

Elsa mætti á pallinn eftir Sæmundi. Í hnébeygju opnaði hún á þægilegum 140 kílóum og í annarri kláraði hún örugglega 160 kílóa lyftu. Í þriðju hnébeygju voru 170,5 kíló sett á stöngina sem var tilraun til heimsmets.

Elsa sýndi þar hvað hún er gerð úr og kláraði beygjuna glæsilega. Heimsmet og nýtt Íslandsmet í húsi hjá henni.

Í bekkpressu opnaði Elsa á 65 kílóum sem flugu upp. Í annarri lyfti hún 72,5 kílóum sem fór jafnvel upp og í fyrsta. Í þriðju bekkpressunni hækkaði Elsa upp í 80 kíló sem hún kláraði glæsilega.

Í réttstöðulyftu opnaði Elsa á flottum 160 kílóum. Í annarri réttstöðu hækkaði hún í 175 kíló sem hún kláraði vel. Í lokalyftunni voru 183 kíló sett á stöngina sem var tilraun til að bæta eigið heimsmet.

Því miður náði Elsa ekki að klára lyftuna. Samanlagður árangur varð 425,5 kíló sem er jöfnun á hennar besta en þessi kíló tryggðu Elsu gull og heimsmeistaratitil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×