Atvinnulíf

Smá kvef, haus­verkur eða flensa og vinnan

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Fólk sem elskar vinnuna sína er gjarnt á að mæta í vinnuna þótt það sé slappt eða hálf veikt. Og það sem verra er: Til viðbótar við smithættu veikinda á vinnustað, er fólk þá oft ómeðvitað að hafa þau áhrif á vinnustaðamenninguna að samstarfsfólk fer að gera slíkt hið sama.
Fólk sem elskar vinnuna sína er gjarnt á að mæta í vinnuna þótt það sé slappt eða hálf veikt. Og það sem verra er: Til viðbótar við smithættu veikinda á vinnustað, er fólk þá oft ómeðvitað að hafa þau áhrif á vinnustaðamenninguna að samstarfsfólk fer að gera slíkt hið sama. Vísir/Getty

Þótt vitað sé að ákveðinn hópur fólks stundar að misnota veikindaréttinn sinn í vinnunni, sýna rannsóknir það víða um heim að meirihluti fólks á það til að mæta í vinnuna, þótt það sé veikt.

Eða nokkurn veginn veikt.

Því stundum finnst okkur við ekki beint vera veik: Erum með smá kvef, hausverk, vott af einhverri flensu en þó ekki það slöpp að við séum rúmliggjandi.

Förum því í vinnuna, hóstum og snýtum okkur allan daginn en reynum að standa okkar pligt.

En hversu skynsamlegt er þetta? Og hvers vegna á fólk það til að mæta í vinnu þegar það er í raun hálf veikt? Ekki síst með tilliti til þess að auðvitað aukum við á líkurnar á að bati dragist á langinn ef við höldum okkur ekki heima.

Það sama á við ef við erum of fljót á því að snúa til vinnu eftir veikindi.

Í grein BBC hér um árið, segir sérfræðingur að fólk sem einfaldlega elskar vinnuna sína eða sýnir merki um að vera vinnualkar, er akkúrat sá hópur sem er mjög líklegur til að mæta hálf slappt í vinnuna. Þegar það ætti helst að vera heima.

En það sem verra er: Oft er þessi hópur fólks í stjórnendastöðu. Sem þýðir að annað starfsfólk er þá líklegra til að gera slíkt hið sama.

„Ef yfirmaðurinn þinn sýnir ítrekað þá hegðun að mæta hálf veikur í vinnuna, getur starfsfólki fundist eins og það sama sé ætlast til af þeim,“ er haft eftir sérfræðingnum.

Því já; eftir höfðinu dansa víst limirnir.

Samkvæmt umræddri grein, eykur það sum sé líkurnar á því að fólk mæti hálf slappt í vinnuna ef viðhorf stjórnenda og/eða annarra í vinnunni er þannig að fólk upplifir ákveðna pressu á sér að mæta þrátt fyrir vanlíðan eða veikindi.

Eitthvað sem okkur hefði þó alls ekki dottið í hug í Covid!

Því ef heimsfaraldurinn kenndi okkur eitthvað mjög vel, þá er það einmitt það að smithættan er alltaf til staðar. Og engum greiði gerður ef við smitum aðra af veikindum. Smá kvefi eða öðru.

Að halda sig heima við í einn til tvo daga, er því alltaf miklu skynsamlegri lausn. Fyrir okkur sjálf, undirmenn okkar, samstarfsfólk og/eða aðra.

Enda væntanlega ekkert okkar sem vill hafa þau áhrif á vinnustaðamenninguna að annað fólk fer líka að mæta veikt til vinnu. Eða hvað?

En hvað þá með þann hóp fólks sem ekki hefur efni á veikindadögunum? Starfar sjálfstætt og fær ekki laun greidd ef það skilar ekki af sér vinnu. Hér þarf auðvitað hver og einn að meta stöðuna fyrir sig. Fjölmargar rannsóknir sýna samt fram á að þegar við erum slöpp eða veik, erum við ekki með fulla afkastagetu. 

Sem dæmi má nefna rannsókn á 1.278 fullorðnum vinnandi einstaklingum tímabilið 2012-2016 sem sýndi að meðaltals framleiðniskerðingin okkar ef við erum með flensu er 67-74%.

Eftir stendur því spurningin: 

Hversu mikið gagn er af okkur veikum og hversu fljót værum við að vinna sömu verk þegar við erum orðin hress?


Tengdar fréttir

X-kynslóðin: Oft gleymd en ómissandi

Það er svo mikið talað um Z-kynslóðina að aðrar kynslóðir falla eiginlega í skuggann. Ekki síst X-kynslóðin, sem þó er ein sú mikilvægasta á vinnumarkaði í dag: Fædd tímabilið 1965-1979 og á því heillangan tíma eftir á vinnumarkaði.

Ekki of seint að breyta starfsframa eða vinnu eftir fimmtugt

Það er svo mikið talað um hversu erfitt það er fyrir fólk eftir fimmtugt að fá vinnu, að eflaust þora sumir á þessum aldri ekki einu sinni að hugsa þá hugsun til enda að segja upp í vinnunni sinni. Þótt fólk sé kannski orðið dauðþreytt á starfinu og dreymir alla daga um eitthvað annað.

Að líða eins og svikara í vinnunni

Ein af fjölmörgum góðum greinum Harvard Business Review hefst á fyrirsögninni: Þú ert enginn svikari, þú ert frábær (e. You're Not an Imposter. You're Actually Pretty Amazing).

Að púsla saman vinnu, aukavinnu og lífinu

Flest okkar þekkjum það að vinna með námi. Þar sem skólinn var í rauninni starf númer eitt en síðan var það vinnan með skólanum. Sem oftar en ekki skipti okkur jafnvel meira máli því þannig fengum við pening til að lifa!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×