Fótbolti

Eiður dá­samaði Caicedo í beinni á Brúnni

Sindri Sverrisson skrifar
Ekvadorinn Moises Caicedo heillaði menn upp úr skónum í gærkvöld.
Ekvadorinn Moises Caicedo heillaði menn upp úr skónum í gærkvöld. Getty/Rob Newell

Eiður Smári Guðjohnsen mætti ásamt sínum gamla liðsfélaga Joe Cole á Stamford Bridge í gærkvöld þar sem þeir störfuðu sem sparkspekingar í beinni útsendingu TNT Sports.

Eiður og Cole fengu að sjá Chelsea-liðið í essinu sínu því það fagnaði 5-1 sigri gegn Ajax. Þar hjálpaði reyndar til að Ajax skyldi missa mann af velli snemma leiks en helstu atvik leiksins má sjá hér að neðan.

Eiður og Cole voru sérstaklega hrifnir af frammistöðu Moises Caicedo sem skoraði eitt marka Chelsea. Félagið sló breskt met þegar það samþykkti að greiða Brighton 115 milljónir punda fyrir Caicedo sumarið 2023 en félagarnir eru ekki í vafa um að sú fjárfesting borgi sig.

„Ég myndi ekki bara segja að hann sé einn besti leikmaðurinn í úrvalsdeildinni. Ég myndi ganga lengra en það. Hann hefur allt sem til þarf til þess að verða besti miðjumaður síðari ára,“ sagði Eiður og Cole sagði ekki hægt að mótmæla því.

„Félagið hefur verið afar lánsamt í þessari stöðu, með menn eins og Makalele og Kante. Menn vita hvenær þeir sjá góðan miðjumann og þessir stuðningsmenn elska Caicedo. Það voru spurningamerki því hundrað milljónir punda er há upphæð, en hann er hverrar krónu virði,“ sagði Cole.

Næsti leikur Chelsea er á laugardaginn klukkan 14 þegar liðið tekur á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×