Enski boltinn

Stjarna Manchester City hætti næstum því í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josko Gvardiol lyftir hér Englandsmeistaratitlinum en hann hefur spilað stórt hlutverk í liði Manchester City undanfarin ár.
Josko Gvardiol lyftir hér Englandsmeistaratitlinum en hann hefur spilað stórt hlutverk í liði Manchester City undanfarin ár. Getty/Michael Regan

Jokso Gvardiol er í dag í stóru hlutverki hjá bæði enska stórliðinu Manchester City og króatíska landsliðinu en það hefði vel getað endað allt öðruvísi.

Gvardiol segir frá því að hann var næstum því hættur í fótbolta sem unglingur. Hann var þá að íhuga það alvarlega að spila frekar körfubolta „til að vera hamingjusamari“ eins og hann orðaði það.

Varnarmaðurinn frá Manchester City tók næstum því þessa stóru ákvörðun þegar hann spilaði fyrir Dinamo Zagreb. Gvardiol, sem þá var sextán ára, var ekki að komast í aðallið Zagreb svo hann leitaði annars staðar til að finna mögulegan ferli í atvinnuíþróttum.

„Ég var að hugsa um að hætta því mér finnst körfubolti líka skemmtilegur,“ sagði Jokso Gvardiol við breska ríkisútvarpið.

„Ég var ekki viss um það að vilja halda áfram í fótbolta lengur því þegar ég mætti á æfingasvæðið þá var ég ekki lengur hamingjusamur. Ég var bara að reyna að finna aðrar lausnir og verða hamingjusamari. Allir vinir mínir voru að spila körfubolta og það kom því til greina að fara þangað,“ sagði Gvardiol.

Gvardiol komst að lokum inn í liðið hjá Dinamo Zagreb þar sem hann vann meistaratitilinn tvö ár í röð í Króatíu. Félagaskipti hans til RB Leipzig fyrir sextán milljónir punda gerðu hann síðan að dýrasta króatíska unglingnum frá upphafi.

Manchester City keypti Gvardiol síðan fyrir tveimur árum fyrir 77 milljónir punda sem gerir hann að næstdýrasta varnarmanni sögunnar. Aðeins kaup á Harry Maguire til Manchester United kostuðu meira.

Gvardiol hefur skorað fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni en nokkur annar varnarmaður síðan hann kom til City. Hann spilaði í 55 af 61 leik City á síðasta tímabili sem miðvörður og vinstri bakvörður. Króatinn hefur nýlega spilað sem vinstri miðvörður í fimm leikja ósigraða röð fyrir City.

„Ég er ánægður að vera kominn aftur í mína stöðu,“ sagði hann. „Auðvitað höfum við ný markmið á þessu tímabili og við viljum stefna hátt.“ En ég vil gjarnan segja að það sé frekar snemmt að tala um markmið okkar, tímabilið er langt svo við skulum taka leik fyrir leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×