Enski boltinn

Sjáðu mörkin í verstu byrjun Hamranna í hálfa öld

Sindri Sverrisson skrifar
Lucas Paqueta leyndi ekki vonbrigðum sínum í gær.
Lucas Paqueta leyndi ekki vonbrigðum sínum í gær. Getty/Robbie Jay Barratt

West Ham tapaði 2-1 gegn nýliðum Leeds á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöld og skelfileg byrjun Hamranna á leiktíðinni heldur því áfram. Mörkin úr leiknum má sjá á Vísi.

Mörkin úr leiknum í gær, þeim fyrsta þessa líflegu helgi í ensku úrvalsdeildinni, má sjá hér að neðan.

Klippa: Leeds - West Ham 2-1

West Ham er í næstneðsta sæti í deildinni með aðeins fjögur stig og gæti misst Úlfana upp fyrir sig á morgun.

Í gær komst Leeds í 2-0 á fyrsta korterinu með mörkum frá Brenden Aaronson og Joe Rodon. Lucas Paqueta virtist hafa minnkað muninn en var naumlega rangstæður og það var ekki fyrr en á 90. mínútu sem að West Ham skoraði þegar Mateus Fernandes skallaði laglega í netið.

Eini sigurinn kom gegn núverandi stjóra

Um er að ræða verstu byrjun West Ham á einu tímabili í 52 ár. Liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð eftir að Nuno Espirito Santo var ráðinn og hann hefur ekki enn upplifað sigur. Hann var ráðinn í stað Grahams Potter, nýráðins landsliðsþjálfara Svía, sem rekinn var í september.

Eins kaldhæðnislegt og það er þá kom eini sigur West Ham til þessa gegn Nottingham Forest, þegar Nuno var stjóri þess liðs.

„Það eru mörg vandamál til staðar í félaginu okkar. Við eigum ekki að skýla okkur á bakvið vandamálin. Allir verða að vera líflegir, gera mikið meira og vera rétt staðsettir,“ sagði Nuno.

Síðast þegar West Ham byrjaði svona illa, tímabilið 1973-74, tókst liðinu þó á endanum að bjarga sér frá falli.

Leeds er í fínum málum, með 11 stig í 13. sæti eða 6 stigum frá fallsæti, nú þegar hin liðin eiga þó leik til góða um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×