Fótbolti

Sverrir fyrir­liði og maður leiksins í fyrsta leik Benítez

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Ingi Ingason byrjaði vel undir stjórn Rafa Benítez.
Sverrir Ingi Ingason byrjaði vel undir stjórn Rafa Benítez. Getty/Daniela Porcelli

Sverrir Ingi Ingason var fyrirliði Panathinaikos í dag, í fyrsta leik liðsins undir stjórn þjálfarans þrautreynda Rafa Benítez sem ráðinn var í síðustu viku.

Panathinaikos mætti Asteras Tripolis á heimavelli og vann 2-0 sigur. Sverrir stóð vaktina í miðri vörn Panathinaikos og virðist hafa staðið sig mjög vel því hann hlaut til að mynda hæstu einkunn allra á úrslitasíðunni Sofascore, eða 8,1.

Fyrra mark Panathinaikos kom í lok fyrri hálfleiks þegar Karol Swiderski skoraði úr vítaspyrnunni. Seinna markið var svo sjálfsamark Julían Chicco á 68. mínútu.

Panathinaikos á eftir fjóra leiki, þar af tvo í deild, áður en Sverrir kemur til móts við íslenska landsliðið fyrir leikina mikilvægu við Aserbaísjan og Úkraínu í undankeppni HM í næsta mánuði.

Panathinaikos situr nú í 6. sæti grísku úrvalsdeildarinnar, með 12 stig eftir 7 leiki, en Asteras er á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×