Formúla 1

Yfir­burðir Norris sem er kominn á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Lando Norris var að sjálfsögðu hæstánægður eftir að hafa unnið Mexíkókappaksturinn í fyrsta sinn. Charles Leclerc varð annar.
Lando Norris var að sjálfsögðu hæstánægður eftir að hafa unnið Mexíkókappaksturinn í fyrsta sinn. Charles Leclerc varð annar. Getty/Clive Rose

Nú þegar aðeins fjórar keppnir eru eftir af tímabilinu í Formúlu 1 hefur Lando Norris tekið forystuna af liðsfélaga sínum hjá McLaren, með sigri í Mexíkókappakstrinum í dag.

„Glæsileg helgi. Vel gert allir. Ótrúleg úrslit. Stórkostlegur bíll. Takk allir fyrir alla vinnuna. Við verðum að halda svona áfram!“ sagði Norris kampakátur í talstöðina eftir að hafa tryggt sér sigurinn.

Liðsfélagi hans, Oscar Piastri, náði aðeins fimmta sæti og þar með komst Norris upp í efsta sætið. Það munar hins vegar aðeins einu stigi á þeim og því afar spennandi lokakafli tímabilsins í vændum.

Charles Leclerc varð í 2. sæti í dag, hálfri mínútu á eftir Norris, og Max Verstappen kom í mark 0,725 sekúndum á eftir honum og varð þriðji. Oliver Bearman á Haas náði svo óvænt fjórða sætinu, eftir að hafa náð að halda aftur af Piastri.

Norris er núna með 357 stig, Piastri 356 og Verstappen er enn með í baráttunni með 321 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×