Innlent

Vesturbæjarlaug opnuð enn eina ferðina eftir við­gerðir

Eiður Þór Árnason skrifar
Fastagestir Vesturbæjarlaugar hafa gengið þrautagöngu síðustu mánuði.
Fastagestir Vesturbæjarlaugar hafa gengið þrautagöngu síðustu mánuði. vísir/Arnar

Barna- og aðallaug Vesturbæjarlaugar verða opnaðar aftur í fyrramálið en ráðist var í lagfæringar á þeim eftir að málning byrjaði að flagna í kjölfar umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda í sumar. Opnunin er tilkynnt með fyrirvara um að veður leyfi. 

„Laugarkarið var háþrýstiþvegið til að fjarlægja lausa málningu og sýni tekin til að hægt sé að greina hvað veldur flögnun. Að því loknu var blettum lokað með nýrri málningu,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Einungis til bráðabirgða

Um bráðabirgðaviðgerð er að ræða og vonast til að hún dugi fram að næsta sumri þegar hægt verður að vinna að varanlegri lausn, að sögn borgarinnar.

Málningin sem hefur flagnað af sundlaugarkarinu.Reykjavíkurborg

Vesturbæjarlaug var lokað tímabundið vegna endurtekinnar flögnunar á málningu eftir viðhaldsframkvæmdirnar í sumar. Tilgangur þeirra var að bæta aðstöðu gesta og endurnýja gamlar laugar og mannvirki. Framkvæmdalokum var ítrekað frestað og í september fljótlega eftir opnun fór að bera á málningarflögum í lauginni.  

Þetta var í fjórða sinn sem lauginni var lokað vegna framkvæmda undanfarna mánuði. Lauginni var fyrst lokað 26. maí vegna viðhaldsframkvæmda, sem drógust síðan á langinn, en svo opnaði laugin aftur 19. júní. Vesturbæjarlaug var svo aftur lokað 18. ágúst en opnuð aftur viku seinna.

En svo þurfti aftur að loka lauginni í sólarhring 29. ágúst. Eftir það var hún opin gestum fram að 13. október. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×