Íslenski boltinn

„Mjög sáttur með samninginn“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birnir er einn besti leikmaður Bestu deildarinnar og talinn mjög hálaunaður.
Birnir er einn besti leikmaður Bestu deildarinnar og talinn mjög hálaunaður. Vísir/Lýður

Birnir Snær Ingason samdi við Stjörnuna og ætlar að hjálpa liðinu að stíga næsta skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum en pælir ekki í því hvort hann sé sá launahæsti í Bestu deildinni.

Birnir sneri heim úr atvinnumennsku í sumar og samdi við KA, sem var þá í neðsta sæti deildarinnar og hafði skorað fæst mörk allra liða.

Hann átti stóran þátt í velgengni liðsins, sem varð á endanum efst í neðri hluta deildarinnar og langt frá því að falla, en ákvað svo að söðla um eftir tímabilið og semja við Stjörnuna.

„Ég var búinn að hugsa mig lengi um, það gekk vel í KA og mér leið mjög vel þar, þannig að þetta var mjög erfið og stór ákvörðun. Á endanum valdi ég Stjörnuna því mér leist bara mjög vel á það sem er í gangi þar...

...Stjarnan kemur alltaf með nýja og nýja unga leikmenn, það er alltaf góð þróun í gangi þar og svo eru bara góðir leikmenn í þessu liði og góður þjálfari. Mér finnst þetta liðið sem er á mestu uppsiglingunni.

Mig langar að spila alla leiki, skora mörk og leggja upp, en aðallega hjálpa þeim að taka næsta skref og reyna að vinna deildina.“

Kominn til að vera

Birnir er að verða 29 ára gamall og hafði verið tæp tvö ár í Noregi þegar hann sneri aftur til Íslands í sumar. Nú segist hann líklega kominn til að vera.

„Já ég myndi nú halda það. Maður veit svosem aldrei en allavega eins og er, er ég sáttur á Íslandi. Maður er spenntur fyrir því að spila stóra leiki og spila í Evrópu.“

Skellihlær að launatalinu

Eftir að Birnir skrifaði undir  hjá Stjörnunni flýgur sú fiskisaga að hann sé nú orðinn sá launahæsti í Bestu deildinni.

„Ég svosem veit ekki með það en er allavega mjög sáttur með samninginn. Ég veit náttúrulega ekki hvað aðrir leikmenn eru með í laun, en ég er allavega sáttur.“

Þetta hefur verið gott tilboð frá Stjörnunni?

„Ég er sáttur“ sagði Birnir og skellihló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×