Innlent

Ríkið greiddi 642 milljónir vegna á­greinings, ein­eltis og brott­reksturs

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjármála- og efnahagsráðuneytið greiddi út 142 milljónir króna í kjölfar dóma og úrskurða sem vörðuðu einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið greiddi út 142 milljónir króna í kjölfar dóma og úrskurða sem vörðuðu einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum. Vísir

Íslenska greiddi 642 milljónir króna í kjölfar úrskurða eða dóma er varða ágreining, uppsagnir eða brottrekstur opinberra starfsmanna á árunum 2015 til 2024.

Samtals voru 437 milljónir króna greiddar í bætur. Til viðbótar bættust við tæpar 88 milljónir króna í vexti og 117 milljónir króna vegna málskostnaðar og annars lögfræðikostnaðar.

Langmest hefur verið greitt vegna starfsmannamála innan Landspítala, eða 188 milljónir króna vegna sex ólíkra mála. Næst mest hefur ríkissjóður greitt vegna Hafrannsóknarstofnunar, eða rúma 51 milljón króna vegna 13 starfsmannamála. Það eru fleiri mál en hjá nokkurri annarri ríkisstofnun á tímabilinu.

Þetta má lesa úr gögnum frá ríkislögmanni sem fréttastofa hefur undir höndum og upplýsingum úr svari við þingmannafyrirspurn. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Samkvæmt þeim og hafa um 438 milljónir króna verið greiddar í tengslum við 55 mál er varða uppsagnir eða brottrekstur, 142 milljónir króna vegna 40 mála sem tengjast einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum, og tæpar 62 milljónir vegna 10 ólögmætra ráðninga. Alls hafa verið greiddar bætur vegna 105 mála á árunum 2015 til 2024.

113 milljónir vegna uppsagna og brottreksturs á Landspítala

Landspítalinn er einn stærsti vinnustaður landsins en í tilviki hans voru 113 milljónir króna greiddar út vegna uppsagna eða brottreksturs og tæpar 5 milljónir króna vegna mála er tengjast einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum.

Hjá Hafrannsóknarstofnun voru rúmar 48 milljónir króna greiddar í kjölfar úrskurða eða dóma sem tengdust uppsögnum eða brottrekstri og tæpar 3 milljónir vegna eineltis, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningum.

Litlar stofnanir hátt á lista

Á tímabilinu var þriðja hæsta fjárhæðin greidd út vegna uppsagna, brottrekstur og ágreiningsmála hjá Skattinum og Tollstjóra eða tæplega 36 milljónir króna. Næst á eftir kemur Úrskurðarnefnd velferðarmála með rúmar 35 milljónir króna. 

Í fimmta sæti kemur Þjóðgarðurinn á Þingvöllum með um 25 milljónir króna en þar af var tæp 21 milljón króna var greidd út til Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur vegna ólögmætrar ráðningar Einars Á. E. Sæmundsen í stöðu þjóðgarðsvarðar. Þetta er hæsta upphæðin sem ríkissjóður hefur greitt einstaklingi í bætur í kjölfar úrskurðar eða dóms er varðar ágreining, uppsagnir eða brottrekstur opinberra starfsmanna á árunum 2015 til 2024. 

Til viðbótar voru um 4,5 milljónir króna greiddar til starfsmanns Þjóðgarðsins á Þingvöllum vegna máls sem tengdist einelti, áreitni eða vanrækslu á kjarasamningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×