Erlent

Æðsti lög­maður ísraelska hersins segir af sér vegna leka

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum fyrir utan Sde Teiman fangabúðirnar fyrr á þessu ári.
Frá mótmælum fyrir utan Sde Teiman fangabúðirnar fyrr á þessu ári. Getty/Mostafa Alkharouf

Æðsti lögmaður ísraelska hersins sagði af sér í morgun vegna myndbands sem lekið var til fjölmiðla í fyrra. Það sýndi ísraelska hermenn umkringja palestínskan fanga og hafa hermennirnir verið sakaðir um að misþyrma honum kynferðislega en rannsókn á leka þessum var opnuð fyrr í vikunni.

Herforinginn Yifat Tomer-Yerushalmi var æðsti lögmaður ísraelska hersins en hefur verið í leyfi frá því lögreglurannsóknin hófst í vikunni og er búist við því að hún verði yfirheyrð á næstu dögum, samkvæmt frétt Times of Israel.

Hún sagði af sér á fundi með Eyal Zamir, formanni herforingjaráðs Ísraels, í morgun. Þar er hún sögð hafa tilkynnt Zamir að hún bæri ábyrgð á því að myndbandið hefði ratað í hendur fjölmiðlafólks.

Umrætt myndband sýndi hermenn taka einn fanga í búðunum Sde Teiman til hliðar. Þeir umkringdu fangann með skjöldum, svo ekki sæist nákvæmlega hvað þeir gerðu en þeir hafa verið sakaðir um að brjóta á honum kynferðislega.

Fanginn var svo fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka. Hann hlaut meðal annars brotin rifbein og rifinn endaþarm.

Handtökur á hermönnum í kjölfar birtingar myndbandsins reiddu til mikillar reiði meðal íhaldsmanna í Ísrael, sem reyndu að brjóta sér leið inn á herstöð til að reyna að koma í veg fyrir handtökur.

Fimm hermenn voru ákærðir vegna brotsins fyrr á þessu ári en ákærurnar eru sagðar byggja á umtalsverðum sönnunargögnum og upptökum úr öryggismyndavélum í fangabúðunum.

Gagnrýnd harðlega af ráðherrum

Fjölmiðlar í Ísrael segja að lögreglurannsókn á leka myndbandsins eigi sér uppruna í því að starfsmaður á skrifstofu Tomer-Yerushalmi hafi nýverið verið látinn gangast hefðbundið lygapróf og þá hafi hann verið spurður út í leka myndbandsins.

Hann hafi sagt ósatt og það hafi leitt til rannsóknar og síðan afsagnar herforingjans.

Israel Katz, mjög íhaldssamur varnarmálaráðherra Ísrael, lýsti því yfir í morgun, samkvæmt TOI, að Tomer-Yerushalmi hefði átt að segja af sér. Enginn sem dreifði gyðingahatri gegn ísraelskum hermönnum, eins og hún hefði gert, ætti rétt á því að klæðast einkennisbúningi ísraelska hersins.

Þá hefur Al Jazeera eftir Gideon Saar, utanríkisráðherra Ísrael, að Tomer-Yerushalmi hafi valdið miklum skaða á orðstír ísraelska ríkisins og ísraelska hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×