Handbolti

Víðir vann „diplómatískan sigur“ á þýska handknattleikssambandinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Georgios Kolovos er nýr leikmaður liðs Víðis sem er undir grískum áhrifum.
Georgios Kolovos er nýr leikmaður liðs Víðis sem er undir grískum áhrifum. Facebook/Víðir handbolti

C-deildarliði Víðis í Garði í handbolta hefur borist mikill liðsstyrkur í gríska landsliðsmanninum Georgios Kolovos eftir það sem félagið kallar „diplómatískan sigur á risum í handboltaheiminum“.

Þetta segir í yfirlýsingu Víðis á Facebook-síðu félagsins og vísað í umfjöllun í grískum fjölmiðlum.

Víðir hefur staðið í deilu við þýska handknattleikssambandið vegna skipta Grikkjans en hafði betur með aðstoð HSÍ.

„Ég er mjög ánægður með að vinna málið því sigrar og ósigrar eiga sér ekki aðeins stað innan vallar, heldur einnig utan þeirra,“ hefur handbolti.is eftir Orfeus Andreou stofnanda og formanni handknattleiksdeildar Víðis.

Kolovos kemur frá þýska liðinu Northeim en segir félagið hafa reynt hvað það gat að koma í veg fyrir skiptin til Íslands og hafi þar á undan komið í veg fyrir skipti hans til Frakklands.

Kolovos er líklega einn stærsti prófíll sem leikið hefur í þriðju efstu deild hér á landi en þessi 27 ára Grikki á að baki landsleiki fyrir heimaþjóð sína en lengst af leikið í þýski neðri deildunum auk þess að spila fyrir PAOK heima fyrir.

Kolovos verður þriðji Grikkinn í liði Víðis en þar eru fyrir Georgios Mourmouris og áðurnefndur Orfeus Andreou.

Víðir hefur aðeins unnið einn af fyrstu þremur leikjum liðsins í 2. deild karla það sem af er vetri. Næsti leikur liðsins er við Hvíta riddarann 2 þann 23 nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×