Enski boltinn

Segir að Man United sé ekki að búa til Harlem Globetrotters-lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Wilcox sést hér með Benjamin Sesko þegar Slóveninn var kynntur sem nýr leikmaður Manchester United.
Jason Wilcox sést hér með Benjamin Sesko þegar Slóveninn var kynntur sem nýr leikmaður Manchester United. Getty/Manchester United

Jason Wilcox er yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United og hann hefur tjáð sig um sína framtíðarsýn á eitt frægasta og farsælasta fótboltalið heims.

Wilcox segir að félagið sé að byggja upp óeigingjarnt og vinnusamt lið fyrir Ruben Amorim, frekar en að reyna að „setja saman Harlem Globetrotters-lið“.

Rauðu djöflarnir enduðu í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili sem er slakasti árangur félagsins í efstu deild síðan 1974. United tapaði líka úrslitaleik Evrópudeildarinnar á móti Tottenham og komst því ekki í Evrópukeppni.

Leikmannahópur United hefur síðan tekið talsverðum breytingum. Þekkt nöfn eins og Alejandro Garnacho og Marcus Rashford hafa farið frá liðinu á meðan Matheus Cunha, Bryan Mbeumo, Benjamin Sesko og Senne Lammens hafa komið til United.

Nýtt lið Amorim situr nú í áttunda sæti deildarinnar en er aðeins tveimur stigum á eftir Manchester City sem er í öðru sæti. Wilcox telur að sumarkaupin muni hjálpa þeim að komast aftur á toppinn.

Réttu karakterarnir

„Það er svo mikilvægt að fá réttu karakterana,“ sagði Jason Wilcox í hlaðvarpinu Inside Carrington. „Ég held að maður verði að fá inn leikmenn sem koma með eitthvað nýtt inn í búningsklefann,“

„En það mikilvægasta er að þegar við fáum leikmann þá verður hann að vilja bæta sig, hann verður að vera liðsmaður og skilja hvað það þýðir að vera hluti af sigursælu liði,“ sagði Wilcox.

„Þetta snýst ekki um að setja saman Harlem Globetrotters. Ef ég lít á sigursæl lið Man United, þá voru þar mjög hagnýtir leikmenn sem myndu deyja fyrir merkið og svo voru þar nokkrir sérvitringar. Þú nefnir [Eric] Cantona, en þegar maður heyrir einhvern tala um hann þá var hann algjör fagmaður,“ sagði Jason Wilcox.

„Þetta eru stöðugir fundir með mér og Ruben, með [ráðningarstjóranum] Chris Vivell, með teyminu hans, þar sem við erum með mjög skýra sýn á þær leikmannagerðir sem við þurfum. Þannig að fyrirmælin koma frá mér og Ruben og fara til Chris,“ sagði Wilcox.

Stöðugt samtal

„Mikið er rætt og rökrætt um þær leikmannagerðir sem við þurfum, og svo fara njósnararnir út á markaðinn, við sameinum það með gagnateyminu og það verður bara stöðugt samtal,“ sagði Wilcox.

„Þegar við semjum við leikmann eru svo margir sem koma að ferlinu. Gagnateymið tekur þátt í ferlinu og við beinum síðan allri athygli okkar að ákveðnum leikmönnum. Það er síðan mjög mikilvægt að við könnum bakgrunn þeirra til að sjá hvort þeir séu fagmenn sem lifa heilbrigðu lífi,“ sagði Wilcox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×